Skip to main content

Gróður dregur úr svifryki

Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði

„Svifryksmengun getur verið mikil í Reykjavík og víðar vegna umferðar. Umræðan um það hvernig hægt er að minnka svifryksmengun hefur oft og tíðum snúist um nagladekk og lækkun á umferðarhraða, en gróður getur einnig komið hér til. Almennt bætir gróður líðan í borgum. Gróðurbelti og gróður almennt bætir einnig loftgæði og er því kjörin leið að gróðursetja til að bæta loftgæðin.“

Þetta segir Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, en hann rannsakar nú áhrif gróðurs á svifryksmengun. „Sýnt hefur verið fram á skaðleg áhrif loftmengunar, jafnvel í fremur lágum styrk, á heilsu manna, en þar sem áhrifin eru ekki eins augljós og við til dæmis eitrun fær loftmengun ekki alltaf mikla athygli.“
 

Þröstur Þorsteinsson

„Almennt bætir gróður líðan í borgum. Gróðurbelti og gróður almennt bætir einnig loftgæði og er því kjörin leið að gróðursetja til að bæta loftgæðin.“

Þröstur Þorsteinsson

Þröstur segir að rannsóknin sín skiptist í nokkra hluta. „Fyrst má nefna öflun upplýsinga um áhrif gróðurs á styrk svifryksmengunar, þetta nær frá áhrifum nærri umferðargötu til breytinga á loftgæðum fyrir borg sem heild. Þetta er áhugavert því gróður getur í sumum tilfellum virkað sem hindrun og aukið mengun á og við götu, en dregið úr henni í heildina þar sem töluvert síast úr loftinu og verður eftir á gróðrinum. Næst má nefna kortlagningu af gróðurbeltum, en víða mætti bæta verulega samfellu gróðurs og tegundaval til að þau nýttust betur til að minnka svifryksmengun handan gróðurbeltisins. Að lokum eru beinar mælingar á áhrifum gróðurbelta. Þessar mælingar eru þó mjög vandasamar. Til dæmis er vindátt mjög breytileg. Yfirleitt eru gróðurbeltin stutt og því erfitt að varast leka og þá fara áhrifin bæði eftir gróðurtegund og stærð agna.“

Þröstur segir að hluti af þessari rannsókn hafi verið unnin sem meistaraverkefni og hafi niðurstöður hennar sýnt að gróður hafði töluverð áhrif á smáar agnir. „Um 30% færri agnir voru þar sem gróðurbelti var til staðar til samanburðar við svæði þar sem ekkert var á milli byggðar og götu. Erfiðara var að mæla áhrif á stærri agnir í rannsókninni.“

Þröstur segir skynsamlegt að gróðursetja markvisst meðfram vegum til að draga úr áhrifum mengunar. Hann segir að rannsóknir sem þessar séu mikilvægar fyrir samfélagið þar sem kostnaður vegna verri heilsu sé gríðarlegur. „Einnig gagnast rannsóknin vísindasamfélaginu vel þar sem margt er enn órannsakað í samspili gróðurs og svifryks og hvað varðar loftmengun almennt. Rannsóknir eru nauðsynlegar til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir og draga úr neikvæðum áhrifum. Í samhengi við þetta verkefni er tengingin við lýðheilsu augljós.“