Getur þorp alið upp og menntað barn? | Háskóli Íslands Skip to main content

Getur þorp alið upp og menntað barn?

Anna Lind Ragnarsdóttir, M.Ed. frá Menntavísindasviði

Samstarf skóla við bæði heimili og nærsamfélag var þungamiðjan í lokaverkefni Önnu Lindar Ragnarsdóttur til meistaraprófs í uppeldis- og menntunarfræðum en hún lauk því haustið 2016. Viðfangsefnið stendur henni nærri enda gegnir hún starfi skólastjóra í Súðavíkurskóla og þekkir vel hversu mikla þýðingu slíkt samstarf hefur fyrir eflingu og þroska nemenda.

„Eitt af mörgum hlutverkum skólastjóra er að eiga samskipti við foreldra og forráðamenn nemenda. Þetta er einn af mikilvægari þáttum í starfi skólastjóra að mínu mati. Ég kynntist uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar árið 2006 og þótti hún strax afar áhugaverð og ákvað að gera hana að þungamiðju í skólastarfi Súðavíkurskóla. Árið 2008 var lagt af stað í innleiðingarferli stefnunnar sem hefur reynst afar vel,“ segir Anna Lind en stefnan miðar m.a. að því að efla ábyrgðarkennd og sjálfsstjórn barna og gera þau meðvituð um tilfinningar sínar.

Anna Lind segir að fjöldi leik- og grunnskóla hafi innleitt þessa stefnu og henni hafi sjálfri þótt full ástæða til að kanna áhrif hennar á ýmsa þætti skólastarfsins, ekki síst með tilliti til sex áherslusviða fræðikonunnar Joyce Epstein um farsælt samstarf skóla við heimili og nærsamfélag. Þessi svið snúa að stuðningi við uppeldi barna, samskiptum heimilis og skóla, þátttöku foreldra í skólastarfi, góðu umhverfi fyrir heimanám, aðkomu foreldra að ákvörðunum um skólamál og samspili og tengslum skóla við nærsamfélagið.

Anna Lind Ragnarsdóttir

„Eitt af mörgum hlutverkum skólastjóra er að eiga samskipti við foreldra og forráðamenn nemenda. Þetta er einn af mikilvægari þáttum í starfi skólastjóra að mínu mati."

Anna Lind Ragnarsdóttir

„Meginniðurstöður mínar benda til þess að stefnan Uppeldi til ábyrgðar geri þremur af þeim sex áherslusviðum sem Epstein leggur áherslu á góð skil. Það eru stuðningur við uppeldi eða foreldrahlutverk, samskipti heimila og skóla og tengsl við samfélagið,“ segir Anna Lind.

En hvað þarf til til þess að þorp geti alið upp og menntað barn? „Til þess þarf að styrkja þá samfélagslegu innviði sem gera þorpinu, hvort sem það er stórt eða lítið, í þéttri byggð eða dreifðri, kleift að ala upp börnin sín og hlúa að velferð og samhjálp allra. Hluti af samfélagslegri ábyrgð velferðarkerfisins er að styrkja menntun og þá burðarása samfélagsins sem eru undirstaða hennar. Ef heimili og skóli hjálpast svo að og bera sameiginlega ábyrgð á uppeldi og menntun barna verður góður skóli enn betri og það leiðir til betra samfélags. Þannig getur þorp alið upp barn.“

Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Menntavísindasvið.