Skip to main content

Geta augnmælingar nýst við greiningu á Alzheimer?

Geta augnmælingar nýst við greiningu á Alzheimer? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Alzheimer-sjúkdómur og aðrir skyldir sjúkdómar eru bæði algengir og alvarlegir. Með hækkandi meðalaldri í heiminum eykst tíðni þeirra sem greinast með heilabilun líkt og Alzheimer. Það er því mjög mikilvægt að finna leiðir til að greina sjúkdóminn snemma,“ segir Sveinn Hákon Harðarson, dósent við Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar, sem vinnur að afar áhugaverðu rannsóknarverkefni á þessum algenga sjúkdómi ásamt samstarfsfólki.

Alzheimer er sá taugahrörnunarsjúkdómur sem oftast veldur heilabilun. Engin lækning er til við sjúkdómnum enn sem komið er en áætlað er að heilabilun hrjái allt að 50 milljónir manna í heiminum.

Ekki er einfalt að greina sjúkdóminn enda geta einkenni hans verið lúmsk og margslungin en á því vilja Sveinn og samstarfsfélagar ráða bót. Í rannsóknarverkefninu nýta þau tækni sem þróuð hefur verið innan Háskólans til að kanna hvort hægt sé að nota mælingar á breytingum í sjónhimnu til að hjálpa við greiningu og mat á sjúkdómnum.

„Sjónhimna augans er náskyld heilanum og vitað er að ákveðnar breytingar verða í sjónhimnunni í Alzheimer-sjúkdómi. Kosturinn við sjónhimnuna umfram sjálfan heilann er að hægt er að skoða sjónhimnuna á frekar einfaldan hátt með sýnilegu ljósi í gegnum ljósop augans,“ útskýrir Ólöf Birna Ólafsdóttir, lektor sem einnig starfar að verkefninu á Lífeðlisfræðistofun.

Auk þeirra kom fleiri fulltrúar frá stofnuninni og Landspítala að verkefninu, þau Anna Bryndís Einarsdóttir, Róbert Arnar Karlsson og Einar Stefánsson, prófessor í augnsjúkdómafræði. Það er einmitt tækni sem Einar þróaði ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og fleirum og varð grundvöllur sprotafyrirtækisins Oxymap, sem gegnir hér lykilhlutverki. Um er að ræða tæki sem nýtist til súrefnismælinga í auganu. 

„Í verkefninu eru gerðar mælingar á súrefnismettun í æðum sjónhimnu fólks með væga vitræna skerðingu eða Alzheimer-sjúkdóm og þær mælingar bornar saman við niðurstöður úr heilbrigðum samanburðarhópi. Mælingarnar byggja á sérstakri myndatöku af sjónhimnunni sem gerir kleift að nota lit blóðs í sjónhimnuæðum til að meta súrefnismettun. Að auki eru gerðar hefðbundnar mælingar á þykkt sjónhimnu með svokölluðu OCT-sneiðmyndatæki,“ segir Sveinn.

„Sjónhimna augans er náskyld heilanum og vitað er að ákveðnar breytingar verða í sjónhimnunni í Alzheimer-sjúkdómi. Kosturinn við sjónhimnuna umfram sjálfan heilann er að hægt er að skoða sjónhimnuna á frekar einfaldan hátt með sýnilegu ljósi í gegnum ljósop augans,“ segir Ólöf Birna.

Betri greining og mat gæti stutt meðhöndlun og þróun meðferðar

Ólöf bætir við að tilgátan sé sú að hrörnun í heila komi að einhverju leyti fram í hrörnun í sjónhimnunni og að hægt sé að nota breytta súrefnisnotkun og/eða breytta þykkt sjónhimnu sem óbeinan mælikvarða á framgang heilasjúkdómsins. „Betri greining og mat á sjúkdómnum gæti hjálpað til við meðhöndlun hans og þróun meðferðar,“ segir hún enn fremur.

Verkefnið sem hópurinn vinnur að núna er framhald á fyrri rannsóknum. Þær leiddu í ljós breytingar á súrefnismettun í sjónhimnu fólks með væga vitræna skerðingu og í sjónhimnu fólks með Alzheimer-sjúkdóm. „Framhaldsrannsóknin er að hefjast og vonast er til að hún gefi nákvæmari mynd af breytingum í sjónhimnunni og svari því hvort augnmælingarnar nýtist til að meta sjúkdóminn,“ segir Sveinn.

Verkefnið er angi af stærra rannsóknarverkefni um væga vitræna skerðingu og Alzheimer-sjúkdóm, sem unnið er undir stjórn Jóns Snædal, öldrunarlæknis á Landakoti. Augnmælingarnar eru einn hluti heildarverkefnisins en aðrir rannsakendur í hópnum vinna m.a. taugasálfræðilegt mat á þátttalendum, skoða lífvísa í heila- og mænuvökva, segulómun af heila og heilarafrit.