Skip to main content

Fólksflutningar móta samfélögin

""

Íris Ellenberger, lektor við Deild faggreinakennslu

Fólksflutningar hafa sífellt mótað samfélög og gera enn en nú standa yfir einir mestu flutningar fólks frá lokum seinni heimsstyrjaldar árið 1945. Um er að ræða m.a. mikinn straum flóttafólks frá stríðsþjáðum svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Auk þess streymir fólk frá Norður-Afríku yfir Miðjarðarhafið á bátskænum og leggur sig í mikinn lífsháska í von um betra líf í Evrópu. Vísindamenn spá því margir að enn meiri fólksflutningar séu í vændum vegna loftslagsbreytinga og hugsanlegs uppskerubrests og skorts á vatni víða um jörðina. 

Hérlendis hafa orðið sýnilegar breytingar á mannlífi undanfarna tvo áratugi vegna komu fólks frá Austur-Evrópu, Póllandi ekki síst, en í rannsóknum sínum á hreyfanleika fólks horfir sagnfræðingurinn Íris Ellenberger enn lengra aftur.   

Hreyfanleiki fólks 
„Rannsóknin mín snýst um að skoða áhrif hreyfanleika fólks á staðbundna menningu og íslenska samfélagsgerð á árunum 1890-1920. Þar skoða ég Reykjavík sérstaklega og ólíka fólksflutningsstrauma, innlenda og erlenda, sem þar mættust. Núningur þeirra átti þátt í að gera Reykjavík að þeirri borg sem hún varð. Hvernig það orsakaðist er líka liður í rannsókninni,“ segir Íris lektor á Menntavísindasviði. Hún lauk doktorsgráðu frá skólanum í sagnfræði árið 2013. Hún leggur nú stund á rannsóknir í sagnfræði, meðal annars á sögu kynverundar á Íslandi og sögu fólksflutninga með áherslu á samskipti, átök og samblöndun ólíkra menningarkima í íslensku þéttbýli. Íris hefur vakið athygli fyrir skrif sín; hún hefur ritað talsvert í hugvísindavefritið Hugrás, gefið út bækur og ritað fjölda vísindagreina um rannsóknarefni sín. 

Íris sýnir fram á að hreyfanleiki hefur haft mun meiri áhrif á sögu okkar og menningu en venjulega er gert ráð fyrir. „Í umræðu um innflytjendur á Íslandi í samtímanum er oft gert ráð fyrir að áhrif fólksflutninga á íslenskt samfélag séu nútímafyrirbrigði. Svo er ekki,“ segir hún. 

Íris Ellenberger

Erlent fólk valdamikið í Reykjavík

Rannsókn Írisar á hreyfanleika fólks er framhald af doktorsritgerð hennar frá árinu 2013. Þar fjallaði hún um hreyfingu og átök með sérstaka skírskotun til félagslegrar stöðu Dana á Íslandi á tímabilinu 1900 til1970. „Doktorsverkefnið mitt leiddi í ljós að erlent fólk var mjög valdamikið í Reykjavík í kringum 1900 en þó var aðallega aðflutningur sveitafólks í þéttbýli sem olli því að Reykjavík stækkaði ört á þessum tíma,“ segir Íris. Hún færði því fókusinn af tilteknum þjóðernishópi og yfir á þann núning sem á sér stað þegar hópar með ólíkan uppruna mætast. 

„Komið hefur í ljós að tengsl yfirstéttar við Danmörku og aðgangur hennar að borgaralegri menningu evrópska meginlandsins voru grundvallarforsendur stéttarstöðu hennar. Hreyfanleiki yfirstéttarinnar hafði mótandi áhrif á einn af grunnþáttum reykvísks samfélags um 1900, þ.e. stéttaskiptinguna,“ segir Íris. Næst langar hana að skoða hvernig erlendir sjómenn mótuðu bæinn og væntir þess að þær niðurstöður verði ekki síður áhugaverðar. Hingað til hefur Íris aðallega skoðað átök í kjölfar þess að fólk fluttist úr íslenskum sveitum til Reykjavíkur og mætti þar dansk-íslenskri yfirstétt sem í senn tilheyrði íslensku og dönsku samfélagi.

Rannsóknir grunnstoð lýðræðisins

„Rannsóknin sýnir að hreyfanleiki er ekki eitthvað nýtt á Íslandi. Þvert á móti hafði hann grundvallaráhrif á reykvískt samfélag, þegar ólíkir straumar fólks, varnings og hugmynda mættust, tókust á og blönduðust saman kringum 1900,“ segir Íris. Reykjavík er trúlega ekkert einsdæmi svo rannsóknin leggur til sögulegt sjónarhorn á innflytjenda- og hreyfanleikarannsóknir. Íris sýnir fram á að hreyfanleiki hefur haft mun meiri áhrif á sögu okkar og menningu en venjulega er gert ráð fyrir. „Í umræðu um innflytjendur á Íslandi í samtímanum er oft gert ráð fyrir að áhrif fólksflutninga á íslenskt samfélag séu nútímafyrirbrigði. Svo er ekki,“ segir hún. 

Sagnfræðingurinn Íris Ellenberger kveðst trúa á rannsóknir sem grunnstoð lýðræðis, hún segir þær „mikilvægan lið í ígrundaðri ákvarðanatöku sem gefi okkur tæki til að skoða með gagnrýnum augum ákvarðanir valdhafa, auk sagðra og ósagðra forsendna þar að baki. Rannsóknir leggja grunninn að aðhaldi við valdhafa og eru því lýðræðissamfélögum ómissandi.“