Skip to main content

Fólk og birnir á förum um landið

Jón Jónsson, verkefnisstjóri hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum

Háskóli Íslands starfrækir rannsóknasetur í öllum landshlutum þar sem áhersla er á rannsóknir og nýsköpunarverkefni í góðu samstarfi við heimamenn. Starfsemi setranna hverfist um afar fjölbreytt fræðasvið og í nýjasta setrinu, sem er á Hólmavík og var opnað á haustmánuðum 2016, er sótt í djúpan reynslubrunn heimamanna á sviði þjóðfræði.

Jón Jónsson þjóðfræðingur heldur um taumana í Rannsóknasetrinu á Hólmavík og hann er með fjölmörg járn í eldinum. Eitt þeirra er rannsóknarverkefni þar sem árekstrar manns og náttúruafla er til skoðunar. „Hugmyndin er að skoða ýmiss konar náttúruvá í sögulegu ljósi, kanna hugmyndir fólks og viðhorf gagnvart aðsteðjandi og yfirvofandi ógnum sem tengjast náttúrunni. Ein aðferðin er að skoða sögur, sagnir og þjóðtrú sem tengjast náttúruöflunum, hvernig fólk hefur upplifað og sagt sögur um hættur eins og jarðskjálfta, snjóflóð, óveður, hafís og fleira slíkt,“ segir Jón.

Hafísnum fylgja stundum ógnvænlegir gestir frá Grænlandi og þeir eru einnig til skoðunar í verkefninu. „Heimsóknir hvítabjarna til landsins eru ein uppsprettan af kynngimögnuðum sögum um þessa baráttu fólks við náttúruna og það er skemmtilegt að glíma við að túlka og greina sagnir sem til eru um þessa gesti. Í þjóðsögunum birtast hvítabirnir nánast sem yfirnáttúrulegar verur og þeir sem glíma við þá og hafa betur eru miklar hetjur,“ segir Jón enn fremur.

Jón Jónsson

„Í þjóðsögunum birtast hvítabirnir nánast sem yfirnáttúrulegar verur og þeir sem glíma við þá og hafa betur eru miklar hetjur.“

Jón Jónsson

Hugmyndin að verkefninu kviknaði í kringum svokallaðan Náttúrubarnaskóla á Ströndum, nýsköpunarverkefni sem Jón hefur unnið að með fleiri Strandamönnum. „Verkefnið um náttúrubörnin byggist í senn á aðferðum og hugmyndafræði um safnkennslu, náttúrutúlkun og þjóðfræði. Skemmtun og leikjum er fléttað saman við útivist og fróðleik og áhersla lögð á upplifun. Þar sem fróðleikurinn um náttúruna og þjóðfræðin mætast eru þjóðsögur og sagnir um sambúð manns og náttúru til umræðu,“ segir Jón.

Jón er einnig að vinna að útgáfu bókar sem byggist á meistaraverkefni hans í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún fjallar um förufólk í íslenska bændasamfélaginu, stöðu þess á ólíkum tímum, sagnir um þetta fólk og viðhorfin til þess. „Ef allt gengur vel verður bókin gefin út síðar í vetur í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar,“ segir Jón.

Jón leggur jafnframt áherslu á gott samstarf Rannsóknasetursins við námsbraut í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands. „Við erum að vinna saman að því að efla námsleið í hagnýtri þjóðfræði á MA-stigi og skoðum fyrirmyndir í Bandaríkjunum og Skandinavíu. Þar er hagnýt þjóðfræði í hávegum höfð og algengt að þjóðfræðingar vinni að margvíslegum hagnýtum rannsóknum og miðlunarverkefnum fyrir hið opinbera, fyrirtæki og stofnanir,“ segir Jón að lokum.

Ísbjörn