Skip to main content

Fengist við mikilfengleg þemu

Henning Emil Magnússon, mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Bandaríska tónskáldið Bob Dylan hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 2016 fyrir textasmíð sína og framlag til dægurtónlistar. Henning Emil Magnússon, mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, skoðaði verk nóbelskáldsins út frá trúarlegu sjónarhorni í meistararitgerð sinni.

„Bob Dylan frelsaðist og gaf út þrjár plötur frá 1979 til 1981. Margir textanna voru í anda bókstafstrúar. Þetta tímabil er stundum afgreitt sem óheppilegt hliðarspor listamannsins sem hann jafnaði sig á. Þá er horft fram hjá því að trúarleg stef ganga í gegnum allt höfundarverk Dylans,“ segir Henning Emil. Hann notaði kenningu James W. Fowler, sem er samþætt úr sálfræði og guðfræði, til að skoða trúarþroska nóbelsverðlaunahafans og um leið varpa ljósi á hvernig Dylan fæst við trúarleg efni.

„Ég hef haft áhuga á tónlist og þroskasálfræði í langan tíma og því fannst mér spennandi að leiða þetta tvennt saman á þennan hátt,“ segir Henning. Í rannsókninni bar hann saman tvo þríleiki Dylans með hliðsjón af áðurnefndri kenningu Fowlers, annars vegar fyrrnefndar trúarplötur og hins vegar plöturnar Time out of Mind, Love and Theft og Modern Times sem komu út á árunum 1997-2006.

„Bob Dylan frelsaðist og gaf út þrjár plötur frá 1979 til 1981. Margir textanna voru í anda bókstafstrúar. Þetta tímabil er stundum afgreitt sem óheppilegt hliðarspor listamannsins sem hann jafnaði sig á. Þá er horft fram hjá því að trúarleg stef ganga í gegnum allt höfundarverk Dylans.“

Henning Emil Magnússon

„Þessi verk hafa verið nefnd endurfæðingarþríleikurinn með tilvísun í að listamaðurinn náði sér aftur á strik eftir nokkur mögur ár,“ bætir Henning við. Hann segir kenningar Fowlers varpa ljósi á trúarþemu hjá Bob Dylan og gefi ríkari og dýpri mynd af þeim þætti en yfirborðskennd sýn á hvort söngvaskáldið sé trúað eða ekki trúað eftir tímabilum. „Í raun var síðari þríleikurinn áhugaverðari með hliðsjón af kenningu Fowlers en yfirlýsti trúarþríleikurinn,“ segir Henning að lokum.

Leiðbeinandi: Pétur Pétursson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.