Skip to main content

Einstakar óvinsældir ríkisstjórna

Agnar Freyr Helgason, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild

„Um margt hefur endurreisn efnahagsmála gengið afar vel á Íslandi í kjölfar hrunsins, sérstaklega í samanburði við önnur lönd sem fóru illa út úr fjármálakreppunni. Þær ríkisstjórnir sem setið hafa við völd frá hruni hafa hins vegar verið dæmalaust óvinsælar. Þær óvinsældir eru á skjön við viðteknar kenningar í stjórnmálafræði, sem gera ráð fyrir að ríkisstjórnir sem búa við góðan árangur í efnahagsmálum séu almennt verðlaunaðar fyrir slíkt. Íslenska tilvikið er algjörlega á skjön við þær væntingar og því afar áhugavert rannsóknarefni, bæði fræðilega og samfélagslega.“ Þetta segir Agnar Freyr Helgason sem er nýdoktor við Stjórnmálafræðideild.

Hann vinnur nú að rannsókn þar sem leitað er skýringa á því hvaða þættir stjórni kosningahegðun almennings á Íslandi í skugga fjármálakreppunnar sem reið yfir heiminn fyrir nálega áratug.

„Ég leitast sérstaklega við að setja kosningahegðun á eftirhrunsárunum á Íslandi í samhengi við fyrirhrunsárin og sömuleiðis að bera hana saman við kosningahegðun í öðrum löndum sem voru illa leikin af kreppunni. Með þessu móti er hægt að varpa ljósi á hvaða áhrif hrunið hafði á kosningahegðun á Íslandi og að hve miklu leyti þau áhrif eru dæmigerð í samanburði við önnur lönd.“

Agnar Freyr Helgason

„Ég leitast sérstaklega við að setja kosningahegðun á eftirhrunsárunum á Íslandi í samhengi við fyrirhrunsárin og sömuleiðis að bera hana saman við kosningahegðun í öðrum löndum sem voru illa leikin af kreppunni.“

Agnar Freyr Helgason

Agnar segir að fjármálakreppan hafi algerlega umbylt stjórnmálum á Íslandi.

„Þar sem kosningahegðun og stjórnmálaviðhorf almennings gegna grundvallarhlutverki í lýðræðislegu samfélagi, er samfélagslega mikilvægt að rannsaka hvaða áhrif kreppan hafði á viðhorf og hegðun almennings. Slíkt gerir okkur kleift að skilja íslenskt samfélag og lýðræði betur,“ segir Agnar.

„Vísindalegar rannsóknir af þeim toga sem ég vinn að eru mikilvægar fyrir þekkingu okkar á umhverfi okkar og samfélagi. Þær gegna lykilhlutverki í að auka skilning á samfélagi okkar mannanna og hvernig megi betrumbæta það.“