Skip to main content

Einnar gráðu hlýnun breytir miklu

Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

„Ég heillaðist af djúphöfunum og þeirra leyndardómsfulla lífríki snemma á ferlinum. Þegar tilefni gefst til þá einhendi ég mér í einhver verkefni sem tengjast djúphöfunum. Þar er þekkingarskorturinn svo augljós!“

Þetta segir Jörundur Svavarsson, sjávarlíffræðingur við Háskóla Íslands, en hann vinnur nú að nýrri rannsókn í samvinnu við Háskólann í Hamborg og Senckenbergs-safnið í Wilhemshafen í Þýskalandi.

Fyrirhugað er að kanna hver útbreiðsla botndýra, þá einkum jafnfætlna, er á hinum merkilega hrygg, sem aðskilur hafsvæðið norðan Íslands frá meginhluta Atlantshafsins.

„Mesta dýpi á hryggnum er um 480 metrar og hann virkar því eins og þröskuldur fyrir sum dýr sem lifa í djúpsjónum norðan og sunnan hryggjarins. Í verkefninu er fyrirhugað að kanna hvað einkennir fjölbreytileika meðal krabbadýra á þessum hrygg,“ segir Jörundur.
 

Jörundur Svavarsson

Fyrirhugað er að kanna hver útbreiðsla botndýra, þá einkum jafnfætlna, er á hinum merkilega hrygg, sem aðskilur hafsvæðið norðan Íslands frá meginhluta Atlantshafsins.

Jörundur Svavarsson

Skortur á upplýsingum um lífríki á hryggnum var hvati rannsóknanna og „þegar þýskir samstarfsmenn mínir fengu góðan skipatíma á rannsóknaskipunum Meteor og Poseidon þá var ekki um annað að ræða en að fara að taka sýni og skoða hrygginn,“ segir Jörundur.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að svæðið sé frekar fjölbreytilegt en á síðustu 20 árum hefur orðið a.m.k. einnar gráðu hækkun á sjávarhita á grunnsævi við Íslandsstrendur. „Þótt ein gráða hljómi ekki mikið getur ein gráða í hlýnun leitt til umtalsverðra breytinga á tegundasamsetningu og útbreiðslu botndýra. Það er brýnt að þekkja lífríkið á botninum og fylgjast með þessum breytingum, m.a. vegna þess að botndýrin eru mikilvæg fæða margra nytjafiska Íslendinga.“