Skip to main content

Efnahagslegir leyndardómar Snæfellsjökuls

Jukka Siltanen, MS í umhverfs- og auðlindafræði

„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ Fáar setningar hafa undirstrikað betur fegurð og aðdráttarafl jöklanna á Íslandi en þessar línur í Heimsljósi Halldórs Laxness. Þessi orð nóbelskáldsins hafa sannarlega fengið staðfestingu á síðustu árum með síauknum straumi ferðamanna í þjóðgarða sem stofnaðir hafa verið í kringum jöklana hér á landi.

Samfara auknum vinsældum þjóðgarða vakna spurningar um efnahagsleg áhrif þeirra fyrir Ísland. Jukka Siltanen leitaði svara við þeim í meistaraverkefni sínu í umhverfisog auðlindafræði en þar var þjóðgarðurinn Snæfellsjökull skoðaður sérstaklega. „Þetta er fyrsta tilraunin til þess að rannsaka efnahagsleg áhrif þjóðgarða á Íslandi þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði,“ segir Jukka.
 

Jukka Siltanen

„Þetta er fyrsta tilraunin til þess að rannsaka efnahagsleg áhrif þjóðgarða á Íslandi þar sem stuðst er við alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði“

Jukka Siltanen

Áhugi hans á viðfangsefninu kviknaði í vettvangsnámskeiðinu „Stjórnun friðlýstra fræða“ þar sem verndarsvæði á miðhálendinu og Suðausturlandi voru heimsótt og fjallað um þær áskoranir sem aðstandendur þjóðgarða standa frammi fyrir, m.a. með tilliti til uppbyggingar innviða, sjálfbærni og ferðaþjónustu. „Í nýlegri rannsókn á efnahagslegum áhrifum þjóðgarða í heimalandi mínu, Finnlandi, var sýnt fram á að þjóðgarðarnir væru ekki aðeins mikilvægir í umhverfislegu og félagslegu tilliti heldur einnig efnahagslegu. Sú rannsókn styrkti stöðu þeirra í umræðum um fjármögnun innviða,“ bendir Jukka á.

Sami vandi varðandi fjármögnun innviðauppbyggingar og starfsemi blasir við í íslenskum þjóðgörðum, að sögn Jukka, ekki síst í ljósi þess mikla uppgangs sem verið hefur í ferðaþjónustu á Íslandi. Því hafi legið beint við að rannsaka áhrif þjóðgarða á efnahag Íslands.

Niðurstöður Jukka sýna að efnahagsleg áhrif Snæfellsjökuls eru mjög mikil, eða um 3,9 milljarðar króna á ári. Heimsóknir gesta í þjóðgarðinn skapa yfir 700 heilsárs- og hlutastörf og yfir 900 milljónir í skatttekjur. Þá er tekjuskatturinn sem skapast í þjóðgarðinum 14 sinnum meiri en rekstrarkostnaður hans. „Hvergi í heiminum, þar sem rannsóknaraðferðinni hefur verið beitt, eru þessar tölur hærri en þær skýrast af miklum fjölda erlendra gesta og tiltölulega litlum fjárfestingum í þjóðgörðum hér á landi,“ segir Jukka.

Að sögn Jukka undirstrika niðurstöðurnar að náttúruvernd og náttúrumiðuð ferðaþjónusta séu efnahagslega sterkir valkostir við nýtingu náttúruauðlinda. „Þær sýna t.d. að nauðsynlegt er að skoða vandlega áætlanir um orkuvinnslu í nýjustu útgáfu rammaáætlunar í samanburði við þau störf, tekjur og skatta sem skapast með náttúrumiðaðri ferðaþjónustu. Það eru jafnframt skýr tækifæri til að þróa þjónustu í tengslum við þjóðgarða áfram út frá efnahagslegri sjálfbærni því eins og sakir standa fær ríkið fjármuni sem varið er til þjóðgarða margfalt til baka í formi skatta.“

Leiðbeinendur: Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og prófessor við Hagfræðideild, Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði.