Skip to main content

Dómstólar og hefndarklám

Stefán Snær Stefánsson, mag. jur. nemi við Lagadeild

Með tilkomu snjallsímans breyttist tilveran til muna. Sumt varð einfaldara og þægilegra, annað flóknara og erfiðara viðfangs og nýjar ógnir litu dagsins ljós. Þeirra á meðal er svokallað hefndarklám. Í stuttu máli er það þegar myndum eða myndskeiðum sem sýna nekt og/eða hafa kynferðislega skírskotun er dreift án samþykkis þess eða þeirra sem eru í mynd, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Stefán Snær Stefánsson lauk nýverið BA-prófi frá Lagadeild þar sem hann kannaði hvernig dómstólar líta á þessa nýju tegund afbrots og hvernig þeir túlka hegningarlög gagnvart því.
 

Stefán Snær Stefánsson

Í stuttu máli er hefndarklám það þegar myndum eða myndskeiðum sem sýna nekt og/eða hafa kynferðislega skírskotun er dreift án samþykkis þess eða þeirra sem eru í mynd, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Stefán Snær Stefánsson

„Ég hafði gríðarlegan áhuga á að kanna sýn dómstóla á þetta fyrirbæri því þetta skiptir mig máli, þetta skiptir kynslóð mína máli. Þetta er afbrot sem er allt of, allt of algengt og þar sem fórnarlambið birtist bara sem líkami á skjá er of mikil hætta á tilfinningalegri aftengingu við alvarleika glæpsins. Ég hafði oft heyrt um myndir eða myndbönd í dreifingu og hef áður séð slíkt myndefni. Í dag dettur mér ekki í hug að opna slíkt né dreifa því áfram og reyni að hvetja fólk í kringum mig að gera slíkt hið sama,“ segir Stefán sem stundar nú meistaranám í lögfræði.

Íslenskir dómstólar hafa túlkað verknaðinn sem kynferðisbrot með vísan til 209. gr. almennra hegningarlaga fremur en brot á friðhelgi einkalífs líkt og algengt er erlendis. „Með ritgerðinni vildi ég stikla á stóru varðandi afbrotið sjálft, helstu birtingarmyndir verknaðarins, hugtakanotkun og hvernig ríkisvaldið refsar hinum ákærða. Það er mikilvægt að skoða þessa tegund afbrota því þau eru tíð og það er ekki langt síðan farið var að ákæra fólk fyrir að dreifa eða birta myndefni í leyfisleysi. Vonandi verður haldið áfram að leggja fram frumvörp um breytingar á hegningarlögum hvað varðar hefndarklám eða hrelliklám því þannig skapast meiri umræða um það og þannig ættum við geta komið í veg fyrir fleiri brot. Það er löngu kominn tími til að færa umræðuna frá því að vera bara umræða yfir í aðgerðir. Taka afstöðu. Breyta leiknum,“ segir Stefán.

Leiðbeinandi: Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi.