Skip to main content

Doktorsnemi vann tímamótarannsókn á algengi langvinns nýrnasjúkdóms

Líklegt er að fyrri rannsóknir á langvinnum nýrnasjúkdómi hafi ofmetið algengi hans þar sem ekki hefur verið tekið nægjanlegt tillit til aldurstengdra breytinga á nýrnastarfsemi. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri rannsókn Arnars Jans Jónssonar, doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands, og samstarfsfólks sem birtist í vísindaritinu Kidney International nýverið. Rannsóknin sýnir jafnframt að algengi sjúkdómsins er um helmingi lægra hér á landi en í fyrri rannsóknum. Um er að ræða stærstu rannsóknsem Arnar hefur komið að og er birt í alþjóðlegu vísindatímariti en henni hefur verið lýst sem tímamótarannsókn sem gæti átt eftir að kollvarpa núverandi skilgreiningu sjúkdómsins.

Langvinnur nýrnasjúkdómur er samheiti yfir langvinna nýrnasjúkdóma af margvíslegum toga. Hann einkennist af skerðingu á nýrnastarfsemi eða öðrum teiknum um nýrnaskemmdir í þrjá mánuði eða lengur. Við mat á nýrnastarfsemi er yfirleitt miðað við svokallaðan gaukulsíunarhraða nýrna sem hægt er að reikna út frá kreatíníni í blóði, en það er niðursbrotsefni vöðva sem síast greiðlega í nýrum. Sjúkdómurinn getur reynst mjög alvarlegur og leitt til lokastigsnýrnabilunar sem hefur í för með sér skert lífsgæði og lífslíkur. Hann getur jafnframt haft í för með sér aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum sem er á margan hátt stærra vandamál en framrás yfir í nýrnabilun. 

Fyrri rannsóknir benda til að algengi sé 10-16%

„Fyrri rannsóknir á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms um allan heim hafa gefið til kynna að heildaralgengi sé á bilinu 10–16% og hækki með vaxandi aldri. Þó hefur verið bent á að vafasamt sé að greina langvinnan nýrnasjúkdóm hjá eldra fólki með væga skerðingu á nýrnastarfsemi og engin önnur teikn um nýrnaskemmdir því starfsemi nýrna hnignar með hækkandi aldri og því eins líklegt að um eðlilegar aldurstengdar breytingar að ræða. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að fæstar þessara rannsókna hafa staðfest að skerðing á nýrnastarfsemi hafi varað í þrjá mánuði eða lengur og við höfum bent á að algengi gæti af þeim sökum verið ofmetið,“ segir Arnar og vísar þar til sín og leiðbeinda hans, þeirra Runólfs Pálssonar, prófessors við Læknadeild og yfirlæknis á Landspítala, og Ólafs Skúla Indriðasonar, sérfræðilæknis á Landspítala.

Rannsóknin sem fjallað er um í Kidney International er liður í doktorsverkefni Arnars sem hann byrjaði þó í raun að vinna að á 6. ári í læknisfræðinni. „Ég setti mig í samband við Runólf og Ólaf Skúla vegna þess að mig langaði að vinna með þeim. Þá höfðu þeir verið með þetta verkefni í huga í nokkurn tíma. Mér leist strax vel á það. Þetta er umfangsmikið verkefni sem hefur ekki verið gert áður og felur í sér víðtæka þjálfun bæði í vísindalegri aðferðarfræði en ekki síður í meðhöndlun gagna og því ferli að byggja upp stóran gagnagrunn,“ segir Arnar. 

Hann bætir við að það sé ótrúlega gott að vinna með þeim félögum. „Ég upplifi alltaf mikinn stuðning og samskipti alltaf góð. Þeir gera miklar kröfur og ég hef fundið hvernig færni mín hefur aukist jafnt og þétt. Að auki hef ég unnið mikið með Sigrúnu Helgu Lund sem hefur aðstoðað okkur við tölfræðilega úrvinnslu og það er frábært að leita til hennar,“ segir Arnar enn fremur en þau fjögur eru höfundar greinarinnar í Kidney International ásamt Bjørn O. Erikse, vísindamanni við The Arctic University of Norway í Tromsö sem einnig er í doktorsnefnd Arnars.

Í rannsókninni var upplýsingum safnað um allar kreatínínmælingar í blóði, prótínmælingar í þvagi og sjúkdómsgreiningar hjá öllum einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi. Þessi gögn voru síðan notuð til að reikna hversu margir uppfylltu skilyrði langvinns nýrnasjúkdóms og voru með viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi í þrjá mánuði eða lengur. Alls byggjast niðurstöðurnar á tveimur milljónum kreatínínmælinga hjá rúmlega 218.000 einstaklingum. MYND/Læknablaðið

Arnar Jan Jónsson

Rannsóknin nær til 218 þúsund einstaklinga á Íslandi

Doktorsrannsókn Arnars er þríþætt  og snýr að faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi á árunum 2008-2016. „Í fyrsta lagi er markmiðið að athuga hversu margir uppfylla greiningu langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi á árunum 2008-2016, byggt á reiknuðum gaukulsíunarhraða, svokallaðri albúmínmigu og sjúkdómsgreiningum. Í öðru lagi er ætlunin að meta nýgengi langvinns nýrnasjúkdóms á tímabilinu og athuga áhættuþætti. Þriðji hluti verkefnisins snýr síðan að því að kanna afdrif einstaklinga með langvinnan nýrnasjúkdóm með tilliti til stiga sjúkdómsins,“ segir hann. 

Greinin sem birtist í Kidney International er í raun niðurstaða fyrsta hluta doktorsverkefnis Arnars, þ.e. rannsóknar á algengi langvinns nýrnasjúkdóms á tímabilinu 2008-2016. Í rannsókninni var upplýsingum safnað um allar kreatínínmælingar í blóði, prótínmælingar í þvagi og sjúkdómsgreiningar hjá öllum einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi. Þessi gögn voru síðan notuð til að reikna hversu margir uppfylltu skilyrði langvinns nýrnasjúkdóms og voru með viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi í þrjá mánuði eða lengur. Alls byggjast niðurstöðurnar á tveimur milljónum kreatínínmælinga hjá rúmlega 218.000 einstaklingum.

Algengi sjúkdómsins um helmingi lægra en í fyrri rannsóknum

Niðurstöðurnar sýna að algengi langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi, þegar leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi aldursdreifingu í þýðinu, er tæplega 6%, sem er um helmingi lægra en flestar eldri rannsóknir hafa sýnt. Á hinn bóginn var algengið rúmlega 12% ef það skilyrði var ekki fyrir hendi að skerðing á nýrnastarfsemi hefði varað í að minnsta kosti þrjá mánuði. Enn fremur sýndi rannsóknin að þegar tekið var sérstakt tillit til aldurstengdra breytinga á nýrnastarfsemi reyndist algengið vera enn lægra eða 3,6% en þetta er fyrsta rannsóknin sem metur algengi langvinns nýrnasjúkdóms með þessum hætti.

„Það er óhætt er að segja að rannsóknin marki tímamót varðandi þekkingu á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms því þótt einhver munur sé á samsetningu íslensks samfélags og annarra þjóða með tilliti til áhættuþátta þessa kvilla þá virðist skipta höfuðmáli að staðfesta að um viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi sé að ræða. Líklegt þykir að fyrri rannsóknir hafi ofmetið algengi langvinns nýrnasjúkdóms og að skilgreining sem grundvallast á gaukulsíunarhraða verði að taka tillit til aldurs,“ segir Arnar.

Fullyrt er að rannsókn Arnars og samstarfsfólks eigi eftir að að kollvarpa núverandi skilgreiningu sjúkdómsins og hefur greinin í Kidney International vakið töluverða athygli innan fræðaheimsins. „Greininni fygldi meðal annars leiðari frá tveimur virtum vísindamönnum sem hafa mikið skrifað um faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms. Álit þeirra var það sama og okkar, að við frekari rannsóknir á algengi sjúkdómsins þyrfti að leggja ríkulega áherslu á að staðfesta að um viðarandi ástand sé að ræða,“segir Arnar.

Hann stefnir á að ljúka doktorsnámi næsta vor og halda síðan út í sérnám í svæfinga- og gjörgæslulækningum næsta haust ef allt gengur upp.