Dagsyfja getur verið lífshættuleg  | Háskóli Íslands Skip to main content

Dagsyfja getur verið lífshættuleg 

Dagsyfja getur verið lífshættuleg  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Góður svefn er okkur öllum gríðarlega mikilvægur enda er hann talinn ein af meginundirstöðum góðrar heilsu og vellíðunar, ásamt hollu mataræði og hreyfingu. 

Vansvefta fólk finnur gjarnan fyrir dagsyfju sem getur haft fjölþættar heilsufarslegar afleiðingar auk þess að draga úr lífsgæðum og afkastagetu. Svefnleysi skerðir einbeitingu og viðbragð og getur jafnvel orsakað brenglun á skynjun. Lítill svefn hefur einnig áhrif í sumum tilvikum á skaphöfn fólks. Það er því til mikils að vinna að greina vandamál sem valda dagsyfju og finna ráð til að bæta svefn og draga úr afleiðingum sem geta verið hættulegar heilsu fólks. 

„Í starfi mínu sem deildarlæknir á Landspítala og í sérnámi mínu í heimilislækningum kom mér á óvart hversu syfja er algengt einkenni og oft mjög íþyngjandi. Rannsóknir á dagsyfju hafa samt verið takmarkaðar nema helst í tengslum við svefnsjúkdóma. Ekki hefur verið litið til áhrifa annarra sjúkdóma og lífsstíls eins og mataræðis og hreyfingar sem telja mætti líklegt að hefðu áhrif.“

Þetta segir Elín Helga Þórarinsdóttir um kveikjuna að doktorsrannsókn sinni við Læknadeild Háskóla Íslands. Verkefni hennar heitir „Íþyngjandi dagsyfja – tengsl við heilsufar og lífsstíl“ og snýst það um að skoða tengsl dagsyfju við heilsufar og einnig hvernig lífsstíll hefur áhrif á dagsyfju. Þar skoðar Elín Helga m.a. fæðuval fólks og hversu mikið það hreyfir sig.

Dagsyfja eykur líkur á slysum 

Elín hefur einlægan áhuga á rannsóknum á svefni og tengslum hans við heilsu og líðan. Hún er í sérfræðinámi í heimilislækningum auk þess að vinna að doktorsrannsókninni og vill gjarnan að aukin þekking á þessu sviði nýtist í starfi heimilislækna hér og víðar. 

Elín Helga segir að verulegur skortur sé á þekkingu á því hvað valdi dagsyfju og því flókna samspili sem er á milli hennar, sjúkdóma, lyfja, hreyfingar, lífsstíls og jafnvel mataræðis. „Dagsyfja eykur verulega líkur á bíl- og vinnuslysum og hefur einnig áhrif á náms- og starfsgetu. Þannig hefur hún veruleg áhrif á lýðheilsu. Á Íslandi eru einstakar aðstæður til að rannsaka dagsyfju þar sem þegar hefur verið lagður grunnur með víðtækum svefnrannsóknum í alþjóðlegu samstarfi undir forystu Þórarins Gíslasonar, prófessors við Háskóla Íslands og læknis á Landspítala.“ 

„Í starfi mínu sem deildarlæknir á Landspítala og í sérnámi mínu í heimilislækningum kom mér á óvart hversu syfja er algengt einkenni og oft mjög íþyngjandi. Rannsóknir á dagsyfju hafa samt verið takmarkaðar nema helst í tengslum við svefnsjúkdóma. Ekki hefur verið litið til áhrifa annarra sjúkdóma og lífsstíls eins og mataræðis og hreyfingar sem telja mætti líklegt að hefðu áhrif,“ segir Elín Helga Þórarinsdóttir.

Elín Helga Þórarinsdóttir

Lakari lífsgæði þeirra sem þjást af dagsyfju

Nú þegar hafa verið birtar ritrýndar greinar sem byggjast á þessum rannsóknum Elínar Helgu. Þar var m.a. sýnt fram á að aðferðir við að meta syfju skipta máli. „Ef notaður var bara hinn svokallaði hefðbundni Epworth-syfjuskali, sem metur líkur á að dotta eða sofna, þá kom í ljós að nokkur stór hluti einstaklinga, sem upplifir raunverulega dagsyfju án þess að dotta eða sofna, var vangreindur,“ segir Elín Helga um rannsóknina sem birtist í vísindaritinu Journal of Sleep Research í fyrra. Einnig kom þar fram að dagsyfja tengist svefntruflunum, fótaóeirð og lakari lífsgæðum. 

„Ég er nú að ljúka vinnu við grein sem fjallar um hvað einkennir þá kæfisvefnssjúklinga sem eru áfram syfjaðir þrátt fyrir meðferð við kæfisvefni. Næst,“ segir Elín Helga, „mun ég gera rannsókn á áhrifum hreyfingar og fæðu á dagsyfju, til dæmis áhrif fæðu á borð við einföld kolvetni.“

Leiðbeinendur Elínar Helgu í þessu verkefni eru Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, Christer Janson, prófessor við Háskólann í Uppsölum, ásamt Jóhönnu E. Torfadóttur, næringar- og lýðheilsufræðingi við Háskóla Íslands, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, klínískum prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og innkirtlalækni á Landspítala, og Samuel T. Kuna, prófessor við Pennsylvaníuháskóla.