Skip to main content

Bragðlaukaþjálfun bæti matvendni

Sigrún Þorsteinsdóttir doktorsnemi og Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor, báðar við Menntavísindasvið

„Rannsóknin snýr að fæðumiðaðri íhlutun í skólaumhverfi með áherslu á börn með og án taugaþroskaraskana, m.a. börn með ADHD og einhverfurófsröskun, og foreldra þeirra.“ Þetta segir Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, um rannsókn sem hófst í ársbyrjun 2017. Í rannsókninni er aðaláherslan á næringu, matvendni og líðan hjá börnum og foreldrum.

„Meginþungi í rannsókninni verður á fjölbreytileika í fæðuvali, sérstaklega á að auka neyslu ávaxta og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt.“

Sigrún segir að skortur sé á rannsóknum á þessu sviði. „Það eru fá úrræði í boði fyrir börn með matvendni og taugaþroskaraskanir og oft eru börnin útilokuð frá rannsóknum af þessu tagi. Einnig er lítið til af fræðsluefni fyrir foreldra barna með matvendni og taugaþroskaraskanir.“
 

Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir

„Meginþungi í rannsókninni verður á fjölbreytileika í fæðuvali, sérstaklega á að auka neyslu ávaxta og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt.“

Sigrún Þorsteinsdóttir doktorsnemi og Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor

Sigrún segir að þetta viðfangsefni hafi hálfpartinn valið sig í gegnum aðalleiðbeinanda hennar í doktorsnáminu, Önnu Sigríði Ólafsdóttur, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið. „Rannsóknin er hugarfóstur hennar og við höfum þróað og undirbúið verkefnið í samvinnu við Urði Njarðvík, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands og meðleiðbeinanda. Við Anna Sigríður höfum einnig unnið saman í Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins þar sem hún hefur meðal annars kynnt bragðlaukaþjálfun í fræðslu sinni þar.“

Sigrún segir að viðfangsefnið falli auk þess vel að bakgrunni hennar í klínískri barnasálfræði. „Við vitum að erfið hegðun barna í kringum mat getur verið mikill streituvaldur á heimilinu.“

Sigrún segir að matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir, sé nýtt og vaxandi rannsóknarefni sem krefjist þverfaglegrar nálgunar. „Vísindalegt gildi þessarar rannsóknar felst í aukinni þekkingu sem verður miðlað í formi vísindagreina en einnig með vinnslu erinda og kynninga meðal fagfólks auk samræðu við samstarfsaðila. Hugmyndin er að afurð rannsóknarinnar nýtist í skólastarfi, útgefnu efni og almennri heilsueflingu hjá fjölbreyttum hópi barna og fjölskyldum þeirra.“