Skip to main content

Bráð streita er mjög mikil við greiningu á lungnakrabbameini

Hrönn Harðardóttir starfar sem lungnalæknir á Landspítala og þar sinnir hún m.a. sjúklingum sem greinast með lungnakrabbamein. Allt frá því hún lauk sérnámi hefur hún beitt sér fyrir því að bæta rannsóknarferli við grun um lungnakrabbamein. Það fer því vel á því að samhliða starfi sínu vinnur Hrönn nú að doktorsrannsókn við Háskóla Íslands þar sem metin eru streituviðbrögð sjúklinga við lungnakrabbameinsgreiningu. Hrönn vill sjá hver áhrif viðbragðanna eru á þróun sjúkdómsins. Ekki þarf að efast um mikilvægi rannsókna af þessum toga því þekkingin er nauðsynleg undirstaða framþróunar í öllum fræðigreinum segir Hrönn.

Lungnakrabbamein er mjög alvarlegur sjúkdómur og því miður eru lífshorfur þeirra sem greinast með þetta mein ekki góðar. Sem betur fer hefur dregið úr tíðni lungnakrabbameins hér samfara því að mjög hefur dregið úr reykingum landsmanna. Rannsóknir sýna að lungnakrabbamein hafa mjög sterk tengsl við tóbaksreykingar. Samkvæmt tölum frá Krabbameinsfélaginu greinast rösklega 170 Íslendingar með lungnakrabbamein ár hvert, um 80 karlar og rösklega 90 konur.  

Mikilvægt að hlúa að andlegri líðan

Hrönn, sem brennur fyrir því að bæta bæði líðan og horfur allra sjúklinga, segir að um sé að ræða framsýna rannsókn hjá 130 sjúklingum sem greindust með lungnakrabbamein á Landspítala á árunum 2015 til 2018. Hún segir að doktorsverkefnið sé mikilvægur liður í rannsóknum á afleiðingum andlegrar vanlíðanar og í því að sjá áhrif líðanar á heilsufar. 

„Niðurstöður rannsóknarinnar kunna að varpa frekari stoðum undir mikilvægi þess að hlúa að andlegri líðan sjúklinga í þessari stöðu jafnt sem líkamlegrar. Við erum að skoða streituviðbrögð sjúklinga við greiningu lungnakrabbameins, forspárþætti þeirra og áhrif á framgang sjúkdómsins og lifun. Upplýsingum hefur verið safnað um andlega líðan, streitu og lífeðlisfræðileg birtingarform streitu fyrir og eftir lungnakrabbameinsgreiningu ásamt vefjameinafræðilegum þáttum.“ Hrönn segir að til þess að geta veitt þessum sjúklingahópi viðunandi stuðning sé algerlega nauðsynlegt að öðlast meiri og dýpri þekkingu á líðan sjúklinganna og hvaða afleiðingar streita getur haft á framvindu sjúkdómsins. 

Líðan við tilvísun og fyrri saga um andlega vanlíðan og samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og fjölskyldu hefur mikið forspárgildi um hversu mikil streituviðbrögðin eru við greiningu lungnakrabbameins,“ segir Hrönn Harðardóttir sem vinnur að rannsókninni undir leiðsögn Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors í lýðheilsuvísindum við Læknadeild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Hrönn Harðardóttir og Unnur Valdimarsdóttir

Bráð streita gríðarleg við greiningu

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að bráð streita við lungnakrabbameinsgreiningu er mjög mikil. „Líðan við tilvísun og fyrri saga um andlega vanlíðan og samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og fjölskyldu hefur mikið forspárgildi um hversu mikil streituviðbrögðin eru við greiningu lungnakrabbameins. Einnig benda niðurstöður rannsóknarinnar til tengsla streitu við tilvísun í greiningu við aukningu á viðtökum streituhormóna á krabbameinsfrumunum sjálfum. Verið er að skoða hvort það hefur síðan áhrif á framgang sjúkdómsins og lifun sjúklinganna.“ 

Forsaga þessarar rannsóknar er sú að Hrönn hitti Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessor við miðstöð lýðheilsuvísinda, fyrir röskum átta árum. Unnur Anna var þá að kynna nýútgefna grein sína um áhættu á alvarlegum heilsufarsútkomum við greiningu krabbameins, sér í lagi lungnakrabbameins. Í framhaldi af samtali þeirra kom upp hugmyndin að þessu rannsóknarverkefni sem síðar var styrkt af RANNÍS. Það gerði þeim tveimur kleift að hrinda rannsókninni í framkvæmd en Unnur Anna er leiðbeinandi Hrannar í þessu verkefni.