Skip to main content

Bólguþættir og blóðþrýstingur framhaldsskólanema

Ragnar Bjarnason, prófessor við Læknadeild

Á undanförnum áratugum hefur tíðni offitu hjá íslenskum börnum og unglingum farið vaxandi þó svo að úr henni hafi dregið hin síðari ár. Þessu er hins vegar ekki svo farið á alþjóðavísu. Á unglingsárunum verða oft breytingar á lífsstíl og kyrrseta eykst. Því fylgir jafnan aukin söfnun líkamsfitu sem talin er væg bólgusvörun og getur haft neikvæð áhrif á blóðþrýsting, efnaskipti og aukið hættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Ragnar Bjarnason, prófessor og yfirlæknir barnalækninga, hefur rannsakað bólguþætti og blóðþrýsting ungmenna á aldrinum 16-20 ára. Hann segir unglingsárin hentugan tíma til að rannsaka forspár- og áhættuþætti lífsstílstengdra sjúkdóma, þegar áhættuþættir og sjúkdómar eru að miklu leyti aðskilin. „Betri þekking á samspili þessara þátta kemur til góða við inngrip og forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum,“ segir hann.

Ragnar Bjarnason

Ragnar Bjarnason, prófessor og yfirlæknir barnalækninga, hefur rannsakað bólguþætti og blóðþrýsting ungmenna á aldrinum 16-20 ára. Hann segir unglingsárin hentugan tíma til að rannsaka forspár- og áhættuþætti lífsstílstengdra sjúkdóma, þegar áhættuþættir og sjúkdómar eru að miklu leyti aðskilin.

Ragnar Bjarnason

Rannsóknin hófst árið 2010 þar sem 490 framhaldsskólanemum var fylgt eftir í fjögur ár. Holdafar, blóðþrýstingur, líkamsþrek og blóðgildi var mælt auk þess sem ítarlegum upplýsingum um næringu, hreyfingu og lífsstíl var safnað.

„Á alþjóðavísu eru fáar rannsóknir sem meta heilsufar fyrir þennan aldurshóp með jafnvíðtækum mælingum,“ segir Ragnar sem telur rannsókn á bólguþáttum og blóðþrýstingi yfir tímabilið frá unglings- til fullorðinsára bæta takmarkaða þekkingu á samspili forspárog áhættuþátta við lífsstílstengda sjúkdóma.

Rannsóknin er hluti doktorsverkefnis Ingibjargar Kjartansdóttur sem hún hefur unnið í nánu samstarfi við Önnu Sigríði Ólafsdóttur prófessor.