Betri fræðsla og fæðing | Háskóli Íslands Skip to main content

Betri fræðsla og fæðing

Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild

„Barnshafandi konur hafa í gegnum tíðina sótt skipulögð foreldrafræðslunámskeið á meðgöngu til að undirbúa komandi fæðingu en niðurstöður rannsókna síðasta áratug á gagnsemi slíkra námskeiða eru misvísandi og því takmarkað hægt að fullyrða um gildi þeirra.“ Þetta segir Helga Gottfreðsdóttir, námsbrautarstjóri í ljósmóðurfræði, en hún stýrir nú rannsókn þar sem skoðuð er ný nálgun við fræðslu og upplýsingagjöf til að undirbúa konur fyrir fæðingu.

Helga segir að vísbendingar séu um að með sérstöku fæðingarsamtali, sem ljósmóðir á við konuna á meðgöngunni, sé hægt að styrkja konuna svo líkur aukist á að fæðing verði án inngripa. Fræðslusamtalið byggist á því að horfa á styrkleika konunnar og hvernig hún geti notað þá í fæðingunni – hvaða þættir séu styrkjandi – ekki hvaða þættir séu hamlandi fyrir eðlilegt ferli fæðingar. Helga segir að fæðingarsamtalið fari fram í meðgönguvernd þar sem konan og ljósmóðirin hafi myndað samband og það sé sniðið að þörfum hverrar konu eða pars.

Helga Gottfreðsdóttir

„Barnshafandi konur hafa í gegnum tíðina sótt skipulögð foreldrafræðslunámskeið á meðgöngu til að undirbúa komandi fæðingu en niðurstöður rannsókna síðasta áratug á gagnsemi slíkra námskeiða eru misvísandi og því takmarkað hægt að fullyrða um gildi þeirra.“

Helga Gottfreðsdóttir

„Fæðingarsamtalið sjálft var þróað og forprófað á fjórum konum í meistaraverkefni Jónínu S. Birgisdóttur ljósmóður. Það reyndist vel, en fyrirhugað er að prófa þessa nálgun enn frekar á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.“

Helga segir að barnsfæðing sé mikilvægur viðburður í lífi fjölskyldu og reynsla sem geti haft áhrif á geðræna og félagslega heilsu kvenna og fjölskyldumeðlima, tengslamyndun móður og barns, frekari barneignir og tíðni keisarafæðinga. „Slæm fæðingarreynsla getur aukið líkur á fæðingarþunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun, verri útkomu brjóstagjafar, lakari heilsu og að kona óski næst eftir keisarafæðingu.“

Helga bendir á að góð fæðingarupplifun geti stuðlað að vellíðan, þeirri tilfinningu að maður hafi afrekað eitthvað, aukinni sjálfsvirðingu, sjálfstyrkingu, andlegum þroska auk þess sem hún auðveldi konum að laga sig að móðurhlutverkinu. „Það er því áhyggjuefni fyrir heilbrigði kvenna að eðlilegum fæðingum án læknisfræðilega inn- gripa fer fækkandi og þarf að skoða með hvaða hætti best sé að búa verðandi foreldra undir fæðingu með það fyrir augum að styðja við eðlilegt ferli.“

Að sögn Helgu ætti fæðingarupplifun að hafa meira vægi í tengslum við útkomu meðgöngu og fæðingar því slík upplifun hafi langtímaáhrif á heilsu og vellíðan kvenna í samfélaginu. „Fæðingarsamtal er einn þáttur í að efla heilbrigði og vellíðan kvenna.“