Skip to main content

Ber brjóst bjóða feðraveldinu byrginn

Ásta Jóhannsdóttir, doktorsnemi við Félags- og mannvísindadeild, og Annadís G. Rúdólfsdóttir, dósent við Menntavísindasvið

„Greinin okkar mun bera þann fallega titil „Fuck Patriarchy“ sem okkur fannst súmmera upp stemmninguna meðal ungu kvennanna,“ segir Annadís G. Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna við Menntavísindasvið, um grein hennar og Ástu Jóhannsdóttur, doktorsnema í félagsfræði, um íslensku brjóstabyltinguna sem birtist í febrúar 2018 í sérriti tímaritsins „Feminism and Pshycology“. Greinin er afrakstur rannsóknar þeirra á umfjöllun íslenskra netfréttamiðla um brjóstabyltinguna (#freethenipple) sem hófst í mars 2015.

Annadís segir það hafa verið áhugavert að fylgjast með ungum konum brjótast fram á sjónarsviðið á pólitískum forsendum og hvernig ný tegund af femínisma ruddi sér til rúms, þróaðist og mótaðist. „Þetta eru konur sem aldar eru upp í nýfrjálshyggjusamfélagi þar sem þér er talin trú um að þú hafir val og getir orðið það sem þú vilt. Þær leita mjög í þessa orðræðu en einnig í hugmyndir róttækra femínista um feðraveldið. Þær gagnrýna hvernig kvenlíkaminn er gagnrýndur og smánaður svo þær fá ekki að njóta hans eins og þær gætu að öðrum kosti.“

Ásta Jóhannsdóttir og Annadís G. Rúdólfsdóttir

„Greinin okkar mun bera þann fallega titil „Fuck Patriarchy“ sem okkur fannst súmmera upp stemmninguna meðal ungu kvennanna.“

Ásta Jóhannsdóttir og Annadís G. Rúdólfsdóttir

Fjölmiðlar fylgdu málinu mjög vel eftir og Annadís segir það hafa komið á óvart hvað umfjöllunin var almennt jákvæð. „Blaðamennirnir voru í mörgum tilfellum ungar konur og það má segja að þær hafi verið nokkurs konar hliðverðir sem sáu um að hleypa ungu konunum inn í fjölmiðlana og voru sympatískar fyrir málstaðnum. Einnig var áhugavert hvað ungu konurnar fengu mikinn stuðning frá eldri kynslóðum femínista. Eldri femínistar lýstu því hvernig þeim fannst þær ekki hafa rétt til þess að gagnrýna umræðuna án þess að setja sig í spor ungu kvennanna enda hefðu þær alist upp við aðrar aðstæður.“

Bakgrunnur Önnudísar er í félagssálfræði og segir hún tilgang rannsóknarinnar ekki aðeins hafa verið að greina út frá hvaða orðræðu ungu konurnar staðsettu sína baráttu heldur einnig þær tilfinningar sem fylgdu henni. „Yfirleitt þegar verið er að fjalla um femínískar hreyfingar er það gert út frá ákveðinni sjálfsmyndarpólitík en við skoðuðum samband tilfinningahrifa, orðræðu og hugmyndafræði. Eitt af því sem við tókum eftir þegar horft var á þessar stelpur t.d. ganga niður Laugaveginn berbrjósta, það var þessi mikla gleði. Þetta er einmitt það sem ýmsar fræðakonur hafa bent á, hvernig það að vera glaður með líkama sinn er allt annað en að vera í líkama sem þú ert smánaður fyrir.“