Skip to main content

Bætt fæðuval hjá ungu fólki með geðraskanir

Helga Guðrún Friðþjófsdóttir, MS frá Matvæla- og næringarfræðideild

„Markmiðið með rannsókninni var að kanna fæðuval ungs fólks með geðrofssjúkdóma, en sambærileg rannsókn hafði aldrei áður verið gerð hérlendis,“ segir Helga Guðrún Friðþjófsdóttir um lokaverkefni sitt í næringarfræði við Háskóla Íslands. Að hennar sögn benda erlendar rannsóknir til þess að tíðni lífsstílssjúkdóma sé hærri hjá einstaklingum með geðrofssjúkdóma en hjá öðrum og vísbendingar eru um að skýringuna megi að hluta til rekja til lélegs mataræðis.

„Rannsókn mín var liður í því að auka þekkingu á næringarástandi einstaklinga með geðraskanir í því skyni að geta í framhaldinu mótað áherslur næringarmeðferðar sem hluta af lífsstílsmeðferð sem veitt er á Laugarási sem er sérhæfð deild innan geðsviðs Landspítala.“

Helga Guðrún segir að rannsóknin hafi verið framkvæmd þar en ungt fólk með fyrstu einkenni geðrofssjúkdóms fái þar mjög mikilvæga þjónustu. „Þar vinnur þverfræðilegt teymi að meðferð sem meðal annars felur í sér breytingar á lífsstíl. Enginn næringarfræðingur vinnur í teyminu og er það meðal annars ástæða þess að leitað var til Næringarstofu Landspítala og Rannsóknastofu í næringarfræði eftir rannsóknasamstarfi.“

Helga Guðrún Friðþjófsdóttir

„Rannsókn mín var liður í því að auka þekkingu á næringarástandi einstaklinga með geðraskanir í því skyni að geta í framhaldinu mótað áherslur næringarmeðferðar sem hluta af lífsstílsmeðferð sem veitt er á Laugarási sem er sérhæfð deild innan geðsviðs Landspítala.“

Helga Guðrún Friðþjófsdóttir

Helga Guðrún segir að niðurstöður rannsóknarinnar sýni að fæðuval hópsins á Laugarási sé töluvert frá viðmiðum opinberra ráðlegginga og skortur gæti verið á tveimur næringarefnum hjá fólkinu, annars vegar á D-vítamíni og hins vegar á omega-3 fitusýrum. Hún segir að neysla á ávöxtum, fiski, mjólkurvörum, jurtaolíum og lýsi hafi verið marktækt minni meðal þjónustuþega á Laugarási en hjá þátttakendum í landskönnun sem gerð var 2010 til 2011. „Neysla á sælgæti og gosdrykkjum var hins vegar meiri. Hlutfall viðbætts sykurs af heildarorku var þannig hærra og hlutfall próteina lægra en hjá viðmiðunarhópnum. Þá höfðu tæplega 40 prósent þjónustuþega aukið þyngd sína um meira en fimm prósent af upphaflegri þyngd sinni á átta til tólf mánaða tímabili. Það er því mjög mikilvægt að þróa leiðir til að bæta fæðuval hópsins og þar með næringargildi fæðunnar.“ 

Helga Guðrún segir að rannsóknir skipti öllu máli þegar kemur að því að öðlast þekkingu og forgangsraða verkefnum í heilbrigðisþjónustu. „Við eigum margt ólært er kemur að því að skilja tengslin milli geðheilsu og mataræðis en á því sviði eru einmitt margar spennandi rannsóknir í gangi.“ 

Leiðbeinandi: Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.