Skip to main content

ARNARSTAPI – nýjar vörur en ekki daglega

Kevin Martin, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Í haust voru vísindamenn Háskóla Íslands við fornleifauppgröft á Arnarstapa við svokallað Amtmannshús sem er timburhús byggt á tímabilinu 1774 til 1787. „Þessi fornleifauppgröftur beinist að minjum verslunar á sautjándu og átjándu öldinni,“ segir Kevin Martin sem stýrði uppgreftrinum en hann fann ásamt samstarfsfólki sínu leifar af húsi frá þessu tímabili. Leifarnar reyndust algerlega óspilltar þótt þær hafi einungis leynst um hálfan metra undir grasbalanum.
 

Kevin Martin

 „Við skoðum danska einokunartímabilið á Íslandi frá 1602 til 1787 frá sjónarhorni fornleifafræðinnar. Við rannsökum þær breytingar sem urðu á samfélaginu á þessum tíma þegar nýjar og innfluttar vörur urðu mun aðgengilegri almenningi en áður.“

Kevin Martin

 „Við skoðum danska einokunartímabilið á Íslandi frá 1602 til 1787 frá sjónarhorni fornleifafræðinnar. Við rannsökum þær breytingar sem urðu á samfélaginu á þessum tíma þegar nýjar og innfluttar vörur urðu mun aðgengilegri almenningi en áður,“ segir Kevin Martin, en rannsóknin er hluti af doktorsverkefni hans.

Heiðurinn að uppgreftrinum á Arnarstapa á Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði, sem er aðalleiðbeinandi Kevins í doktorsverkefninu. „Fókusinn hjá okkur í rannsóknum hefur verið á verslunarhafnir, skipbrot og bújarðir og þetta fellur þar undir,“ segir doktorsneminn Kevin Martin.

„Í fornleifafræðirannsóknum hér hafa fræðimenn einblínt á víkingaöldina og einstök verkefni hafa hingað til verið fá þar sem tíminn eftir miðaldir hefur verið í háskerpu. Okkur fannst því nauðsynlegt að setja tímann nær okkur í fókus. Á því tímabili eru ófá tækifæri til rannsóknar frá sjónarhorni fornleifafræðinnar. Talsverðar ritaðar heimildir liggja auk þess fyrir sem styrkja þessi verkefni.“

Uppgröfturinn á Arnarstapa leiddi í ljós áður óþekkta grunngerð veggjar frá seinni hluta sautjándu aldar eða byrjun þeirrar átjándu. Veggurinn hafði að geyma marga muni sem eru dæmigerðir fyrir innflutning frá þessu tímabili. „Við fundum brot úr leirofni og skreytta diska, brot úr hollenskum reykjarpípum frá sautjándu öld auk brota úr vínglösum,“ segir Kevin.

„Verkefnið sýnir okkur hvernig tímabil, sem er vel skráð og almennt talið liggja ljóst fyrir, er endurmetið og túlkað upp á nýtt með annarri vísindagrein, í þessu tilfelli fornleifafræði. Þetta verkefni sýnir okkur að Ísland var alls ekki einangrað á þessum tíma heldur vel tengt við Evrópu í gegnum viðskipti. Þegar innfluttir hlutir frá þessum tíma eru rannsakaðir fáum við betri vitneskju um ferðalög þessara hluta, hvar þeir voru framleiddir, hvar þeir voru seldir á Íslandi og að lokum á hvaða heimilum þeir enduðu,“ segir Kevin Martin.

Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa
Frá fornleifauppgreftri á Arnarstapa