Álag og kvíði í handboltanum | Háskóli Íslands Skip to main content

Álag og kvíði í handboltanum

Stefán Baldvin Stefánsson, Halldór Rafn Halldórsson og Þorsteinn Máni Óskarsson, BS frá Læknadeild

Töluvert hefur verið ritað og rætt um geðsjúkdóma og íþróttir á undanförnum misserum eftir að þekktir íþróttamenn komu fram í fjölmiðlum og greindu frá andlegum veikindum sínum. Sú umræða varð kveikjan að lokaverkefni sem þeir Halldór Rafn Halldórsson, Stefán Baldvin Stefánsson og Þorsteinn Máni Óskarsson unnu í sjúkraþjálfun vorið 2016.

Í rannsókninni mátu þeir áreiðanleika íslenskrar þýðingar á svokölluðum SAS-2 spurningalista sem notaður er til að meta íþróttatengdan kvíða. Þeir könnuðu jafnframt tíðni og fylgni á milli álagseinkenna, íþróttatengds kvíða og almennra kvíðaeinkenna hjá íslenskum handboltamönnum. Halldór segir rannsóknina hina fyrstu sinnar tegundar hér á landi en við hana nutu þeir góðs af vinnu doktorsnemans Elís Þórs Rafnssonar sem skoðað hefur álagseinkenni meðal handboltamanna.

Stefán Baldvin Stefánsson, Halldór Rafn Halldórsson og Þorsteinn Máni Óskarsson

„Við þekkjum áhrif meiðsla og álagseinkenna á íþróttamenn úr störfum okkar og af eigin reynslu og því fannst okkur tilvalið að rannsaka tíðnina um leið.“

Stefán Baldvin Stefánsson, Halldór Rafn Halldórsson og Þorsteinn Máni Óskarsson

Þremenningarnir starfa allir við sjúkraþjálfun hjá handboltaliðum og Stefán segir þá hafa langað að gera rannsókn tengda íþróttum. „Andleg heilsa íþróttamanna hafði verið talsvert í umræðunni og fannst okkur kjörið að gera viðfangsefnið að umfjöllunarefni okkar. Við þekkjum áhrif meiðsla og álagseinkenna á íþróttamenn úr störfum okkar og af eigin reynslu og því fannst okkur tilvalið að rannsaka tíðnina um leið,“ segir Stefán.

Niðurstöður benda til að íslensk þýðing SAS-2 spurningalistans sé áreiðanlegt matstæki til skimunar á íþróttatengdum kvíða. „Jafnframt eru vísbendingar um að bæði álagseinkenni og kvíðaeinkenni séu talsvert algeng meðal íslenskra handboltamanna en ekki fannst fylgni milli þessara þátta. Sterkari rannsóknir með öðru rannsóknarsniði myndu þó henta betur til að rannsaka fylgni þar á milli,“ segir Þorsteinn.

Halldór tekur undir það og bendir á að með rannsókninni fáist gróf mynd af tíðni álags- og kvíðaeinkenna meðal handboltamanna á Íslandi. „Viðfangsefnið hefur lítið verið rannsakað hingað til en niðurstöðurnar gefa tilefni til frekari rannsókna á því,“ bætir hann við.

Leiðbeinandi: Árni Árnason, dósent við Læknadeild.