Aurora er samstarfsnet níu evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að vera alhliða rannsóknaháskólar, með háan áhrifastuðul rannsókna (e. impact) samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og fjölbreyttan nemendahóp. Aurora-háskólanetið fléttar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í allt starf sitt og leggur áherslu á virka þáttöku nemenda. Aurora háskólanetið var stofnað árið 2016. Jón Atli Benediktsson rektor hefur setið í stjórn þess frá árinu 2017 og var kjörinn forseti Aurora háskólanetsins í nóvember 2020. Háskólarnir í Aurora-netinu eru auk Háskóla Íslands, Vrije-háskólinn í Amsterdam (Hollandi), East Anglia háskóli (Englandi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), Háskólinn í Innsbruck (Austurríki), Háskólinn í Napolí – Federico II (Ítalíu), Roviri i Virgili háskólinn (Spáni), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi) og Háskólinn í Grenoble-Alpes (Frakklandi). Aurora Alliance Aurora-samstarfið var útvíkkað með þátttöku Copenhagen Business School (Danmörku) og Palacký-háskólans (Tékklandi) og sótti undir merkjum Aurora Alliance eða Aurora-bandalagsins um styrk til Evrópusambandsins í European Universities áætlunina. Aurora Alliance var valið eitt af European Universities Alliances eða evrópsku háskólanetunum á síðasta ári og hlaut styrk upp á sjö milljónir evra (ríflega 1,1 milljarð kr.) til næstu þriggja ára. Starfi Aurora Alliance var ýtt úr vör í nóvember 2020. Nýverið hlaut svo Aurora-bandalagið tveggja milljóna evra styrk, jafnvirði rúmlega 300 milljóna króna, frá Horizon 2020 - Science with and for Society (SwafS) áætluninni til að styðja við rannsóknir og nýsköpun innan bandalagsins. Verkefnisstjóri Aurora Alliance: Harpa Sif Arnarsdóttir (AuroraAlliance@hi.is / hsa@hi.is) European Universities áætluninni er ætlað að styrkja evrópskt háskólakerfi í harðri samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. Megináhersla Evrópusambandsins í háskóla- og vísindamálum er á European University Alliances en með samvinnu háskóla undir merkjum European Universities er stefnt að grundvallarbreytingum á því hvernig háskólar álfunnar vinna saman. Það er einstakt tækifæri fyrir Háskóla Íslands að taka þátt í þessu verkefni með Aurora-bandalaginu. Áherslur Aurora Alliance eru á sviði samfélagslegrar nýsköpunar með áherslu á menntun og þjálfun nemenda til að gera þeim betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Í upphafi verður áhersla á fjögur meginsvið (e. domain): Sjálfbærni og loftslagsbreytingar (e. Sustainability & Climate Change) Stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund (e. Digital Society & Global Citizenship) Heilsa og vellíðan (e. Health & Well-being) Menning: Fjölbreytileiki og sjálfsmynd (e. Culture: Diversity & identity) Tengiliðir Háskóla Íslands við Aurora-háskólanetið og við Aurora Alliance eru: Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs (fridrika@hi.is), og Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs (dorij@hi.is). Emily Reise, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, er fulltrúi nemenda (internationalcommittee@hi.is). Lesa um háskólana Háskóli Íslands Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 og er stærsti og öflugasti háskóli landsins. Hann er framsækinn rannsóknaháskóli með breiða skírskotun og staðsettur í hjarta Reykjavíkur, höfuðborgar Íslands. Mikil áhersla er lögð á fjölbreyttar rannsóknir og menntun ungs fólks til að búa það undir virka þátttöku í íslensku samfélagi og alþjóðlegu vísindasamfélagi. Háskóli Íslands telst í hópi 201-250 bestu háskóla heims samkvæmt mati Times Higher Education World University Ranking. Um þessar mundir eru 13.300 nemendur við háskólann, þar á meðal 1.400 alþjóðlegir nemendur. Skólanum er skipað í fimm fræðasvið og 26 deildir sem bjóða yfir 400 ólíkar námsleiðir í öllum helstu greinum vísinda og fræða. Við Háskóla Íslands starfar fjöldi fræðimanna í fremstu röð sem taka þátt í margvíslegum vísindarannsóknum og -verkefnum á alþjóðavettvangi. Víðtækt og virkt samstarf við rannsóknarstofnanir og atvinnulíf eru mikilvægur þáttur í starfi háskólans. Copenhagen Business School í Danmörku Copenhagen Business School Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn (CBS), stofnaður árið 1917. Skólinn er einn virtasti viðskiptaháskóli á Norðurlöndunum. Rannsóknir CBS ná yfir breitt málefnasvið innan félagsvísinda og hugvísinda. Duisburg-Essen háskóli í Þýskalandi Háskólinn í Duisburg-Essen Var stofnaður árið 2003 með samruna tveggja háskóla í borgunum Duisburg og Essen og er hann því meðal yngstu háskóla Þýskalands. Háskólinn er staðsettur í Ruhr-héraðinu í vesturhluta Þýskalands sem einkennist af metnaðarfullu og kröftugu atvinnulífi í örri þróun. Við Duisburg-Essen háskólann eru 11 deildir og fjórir þverfaglegir rannsóknakjarnar á sviði örtækni, líf- og heilbrigðisvísinda, borgarkerfa og umbreytingar nútímasamfélaga. Vísindamenn skólans eru framarlega í rannsóknum og tvinna þétt saman rannsóknir og kennslu með það fyrir augum að laða fram fjölbreytt sjónarmið á viðfangsefnin og miðla þekkingu á milli ólíkra aðila innan háskólans. Á háskólasvæðunum í Duisburg og Essen og við heilbrigðisvísindamiðstöð skólans eru 42.000 nemendur frá yfir 130 löndum. Skólinn fagnar fjölbreytileikanum og styður heilshugar samskipti og samstarf bæði í nærsamfélaginu, m.a. við nágrannaháskólana í Ruhr-háskólabandalaginu og á heimsvísu líkt og í Aurora-samstarfsnetinu og þeim 250 Erasmus-háskólum sem starfa með skólanum. East Anglia háskólinn í Englandi East Anglia háskólinn Er afar virkur á sviði rannsókna. Hann er í hópi 15 bestu háskóla Bretlands, einn af 100 bestu háskólum Evrópu og jafnframt einn af þeim 100 bestu í heiminum þegar litið er til hágæðarannsókna. East-Anglia háskóli er hluti af vísindagörðum Norwich (Norwich Research Park) og stunda um 15.000 nemendur nám við skólann, þar af 4.000 í framhaldsnámi. Um fjórðungur nemendahópsins kemur erlendis frá. Aðrar stofnanir innan vísindagarða Norwich eru Matvælarannsóknarstofnunin (Insitute of Food Research), Sainsbury-rannsóknarstofan (The Sainsbury Laboratory), Earlham-stofnunin (Earlham Institute), og Norfolk- og Norwich-háskólasjúkrahúsin (Norfolk and Norwich University Hospitals). Sérstaða East Anglia háskólans liggur m.a. á sviði umhverfis- og loftslagsmála, heilsu og næringar, málefna barna og fjölskyldna, hagfræði og viðskipta og skapandi skrifa. Þverfagleg nálgun háskólans og alþjóðleg tengsl hans í rannsóknum tryggja að hann er í góðri stöðu til að takast á við mikilvægar rannsóknarspurningar og hafa raunveruleg áhrif í heiminum. Háskólinn í Aberdeen í Skotlandi Háskólinn í Aberdeen Var stofnaður árið 1495 og er fimmti elsti háskóli Bretlands. Aberdeen-háskóli hefur lengi verið metinn í hópi 1% bestu háskóla heims. Aberdeen-háskóli er í höfuðstað gas- og olíuvinnslu í Evrópu og er rómaður fyrir rannsóknir á sviðum heilbrigðismála, orku, matvæla- og næringarfræði og umhverfis- og lífvísinda. Hann er jafnframt menningarmiðstöð fyrir norðausturhluta Skotlands og stendur framarlega á sviði rannsókna í listum og hugvísindum. Ríflega tveir þriðju hlutar allra rannsókna sem stundaðar eru við Aberdeen-háskóla voru metnar „á heimsmælikvarða“ eða „framúrskarandi á alþjóðavísu“ í nýlegu mati á gæðum rannsóknastarfs í Bretlandi (Research Excellence Framework, REF 2014). Aberdeen-háskóli er samfélag nemenda og starfsfólks frá 120 löndum og er stefna og starfsemi skólans mjög alþjóðleg. Samkvæmt matslista Times Higher Education World University Ranking er Aberdeen-háskóli einn af 40 alþjóðlegustu háskólum heims og annar í röð skoskra háskóla á þeim lista. Háskólinn raðast í fimmta sæti á lista yfir þá háskóla í Bretlandi þar sem nemendur eiga hvað auðveldast með að fá vinnu að námi loknu, en samkvæmt nýlegu mati fá 97% útskrifaðra nemenda skólans vinnu. Háskóli Frederico II, í Napólí á Ítalíu Háskóli Frederico II í Napólí Háskóli Federico annars er stofnaður árið 1224 af Fredick öðrum, keisara rómverska ríkisins í Napólí. Skólinn er elsti opinberi háskóli í heimi. Háskólinn starfar í Napólí, í suðupotti Suður-Ítalíu sem bíður upp á margvíslegar áskoranir og tækifæri. Markmið háskólans er að tengja Suður-Ítalíu við alþjóðlegt vísindasamfélag. Napólí háskóli leggur áherslu á samfélagslegt hlutverk sitt, hefur umburðarlyndi og víðsýni að leiðarljósi og er óháður trúar- eða stjórnmálastefnum. Í þessum anda styður hann við starfshætti í kennslu og rannsóknum sem eru opnir og framsæknir. Napólí háskóli er alhliða opinber háskóli sem býður öflugar námsleiðir í öllum vísinda- og fræðagreinum og nemendur geta þróað sig fræðilega auk þess að afla sér færni í störfum í hinum ýmsu greinum. Háskólinn er auk þess vagga öflugra rannsókna og ræktar tengsl sín við samfélagið með ýmsum hætti. Þverfagleg sýn er því á kennslu og rannsóknir. Í Napólí-háskóla eru stundaðar grunnrannsóknir knúnar áfram af forvitni fræðafólks. Háskólinn er á meðal virkustu rannsóknaháskóla á Ítalíu og í Evrópu. Innsbruck-háskóli í Austurríki Innsbruck-háskóli Var stofnaður árið 1669 og er stærsta rannsóknar- og menntastofnun í vesturhluta Austurríkis. Við skólann er 27.000 nemendur og starfslið skólans telur um 5.000 manns. Háskólinn er staðsettur í hjarta Alpanna og við hann eru sextán svið og 81 deild. Rannsóknir við háskólann eru fyrst og fremst tengdar sex fræðasviðum: eðlisfræði, fjalllendi, menningartengslum og –árekstrum, vísindalegri tölvufræði, sameindalíffræði og tölvufræði. Að auki eru fjögur þverfagleg rannsóknarsvið við skólann auk þess sem 46 rannsóknarstofnanir móta rannsóknarstarfið. Skipulag þeirra miðar að því að ýta undir þverfaglegt samstarf af ýmsu tagi. Mælingar á gæðum háskólastarfs hafa sýnt að Innsbruck háskóli er öflug mennta- og rannsóknarstofnun í evrópsku samhengi og nýtur virðingar á mörgum rannsóknarsviðum. Innsbruck háskóli telur það grundvallaratriði að þekkingarsköpun eigi að gagnast samfélaginu í heild en ekki bara fáum útvöldum. Palacký háskólinn í Tékklandi Palacký-háskólinn í Tékklandi Palacký háskólinn Olomouc er elsti háskólinn í Moravíu og sá næst elsti í Tékklandi. Skólinn var stofnaður árið 1573 sem opinber háskóli undir forystu jesúíta hreyfingarinnar í Olomouc, sem var á þeim tíma höfuðborg Moravíu og aðsetur biskupsstólsins. Í dag er skólinn í 601.-800. sæti á lista Times Higher Education listanum. Rovira-háskóli í Katalóníu á Spáni Rovira-háskóli Roviraháskóli í Virgili (URV) var stofnaður árið 1991 af þingi Katalóníu. Frá fyrsta degi hefur markmið háskólans verið skýrt: að nýta þekkingu til að þjóna samfélaginu og stuðla að félagslegri og efnahagslegri framþróun og þróast í tímans rás. Háskólinn er staðsettur u.þ.b. 100 km. suðvestur af Barcelona við miðjarðarhafsströnd Katalóníu. URV menntar fagfólk framtíðarinnar í anda hugsjóna um samevrópskan vinnumarkað án landamæra. Til að ná þessu markmiði býður skólinn upp á 130 ólíkar námsleiðir á öllum þekkingarsviðum og stigum og rösklega 14.000 nemendur nám við skólann. Af 2.700 framhaldsnemum eru 34% alþjóðlegir. Starfslið háskólans telur 2.900 manns. Háskólinn leggur sérstaka áherslu á rannsóknir og hefur því leiðandi hlutverk í þróun svæðisins, einkum á þeim sviðum sem mynda kjarnann í efnahag Katalóníu, þ.e.a.s. í efnafræði, orkurannsóknum, næringar- og heilsufræði, víngerð, ferðamennsku, húsnæðismálum, arfleifð og menningu, upplýsingatækni og í stafrænu hagkerfi. Université Grenoble-Alpes í Frakklandi Grenoble-Alpes háskóli Skólinn varð til við samruna þriggja háskóla í Grenoble í ársbyrjun 2016. UGA er leiðandi háskóli í Frakklandi á sviði rannsókna og kennslu. Háskólinn hefur breitt framboð af námsleiðum og er mjög virkur í alþjóðlegu samstarfi. Hann var stofnaður til að bregðast við áskorunum samtímans og þeim úrlausnarefnum sem æðri menntun stendur frammi fyrir á 21. öld. Nemendur eru um 45.000 á ársgrundvelli og býður skólinn upp á námsleiðir á öllum fræðasviðum og er mikilvæg miðstöð rannsókna og frumkvöðlastarfs í hjarta Evrópu. Yfir 6.000 erlendir nemendur stunda nám við UGA og tekur háskólinn þátt í kennslu- og rannsóknarverkefnum með samstarfsaðilum um allan heim. UGA er meðal 100-200 bestu háskóla heims á mörgum fræðasviðum. Háskólinn á einnig í sterkum tengslum við blómlegt viðskiptalíf og iðnað í Grenoble og áhersla UGA á hagnýtar rannsóknir og tækniþróun hefur komið honum í 35. sæti meðal fremstu frumkvöðlaháskóla í Evrópu. UGA er opinber háskóli sem hefur jafnrétti og jafnt aðgengi allra að leiðarljósi. Leggur skólinn áherslu á þjónustu við nemendur og starfsfólk með sérstakar þarfir, s.s. vegna fötlunar, alþjóðlegan hóp starfsfólks og nemenda og viðtöku flóttamanna. Skólinn leggur ríka áherslu á að vera í virkum tengslum við nærumhverfi sitt, önnur héröð í Frakklandi og allan heiminn. Vrije-háskólinn í Amsterdam, Hollandi Vrije-háskóli í Amsterdam Hefur frá stofnun árið 1880 getið sér orð fyrir sérstaka nálgun í þekkingarleit sinni og markmið um að bæta heiminn. VU er opin stofnun með sterk tengsl við almenning og samfélagið. Skólinn leggur áherslu á að leita djúprar þekkingar á breiðum grunni og nemendur, rannsakendur, doktorsnemar og starfsfólk er hvatt til að til að leita lengra – utan eigin áhugasviða og viðfangsefna og horfa lengra en á það sem blasir við hér og nú. Rannsóknir og kennsla við VU einkennast af miklum metnaði og hvatt er til frjálsra og opinna samskipta og hugmyndavinnu. VU heldur í heiðri almenn gildi háskólastarfs á borð við akademískt frelsi og sjálfstæði eins og fram kemur í heiti skólans, enda merkir Vrije Universiteit „frjáls háskóli“. Skólinn er óháður kirkjunni, ríkinu og öllum viðskiptahagsmunum. Meginstefna VU endurspeglast í þremur grundvallargildum: ábyrgð, opnum samskiptum og persónulegri skuldbindingu. VU er metnaðarfullur háskóli á sviði vísindarannsókna og kennslu og hvetur til frjálsra og opinna samskipta um hugmyndir. Akademísk gildi skólans liggja í þróun akademískra persónuleika, þar sem fjölbreytni og stefna í samfélagsmálum á ríkan sess. Þessi gildi tengjast sögu skólans og sérkennum. Það felur ekki einungis í sér dýpri þekkingu heldur einnig breiðari. Nemendur, rannsakendur, doktorsnemar og starfsmenn eru hvattir til að leita lengra, út fyrir einstök áhugasvið og viðfangsefni, handan hins þekkta. Tenglar Vefur Aurora samstarfsnetsins Vefur Aurora Allianc emailfacebooklinkedintwitter
Þarfnast þessi síða lagfæringar? Var efnið hjálplegt? Var efnið hjálplegt? * Já Nei Endilega láttu okkur vita hvað má betur fara * Viltu fá svar frá okkur? Viltu fá svar frá okkur? Netfang * Svo hægt sé að hafa samband við þig. Skjáskot Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.Skrár verða að vera minni en 2 MB.Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png. CAPTCHASía fyrir ruslpóst Hvaða stafir eru á myndinni? * Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.