Vilja hindra blindu hjá fyrirburum | Háskóli Íslands Skip to main content

Vilja hindra blindu hjá fyrirburum

Vigdís Magnúsdóttir, deildarlæknir á augndeild Landspítala, og Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild

Afar mikilvæg rannsókn er nú í gangi á Landspítala háskólasjúkrahúsi sem snýst um að mynda augnbotna í heilbrigðum nýburum. Ætlunin er að eignast safn af myndum af augnbotnum í heilbrigðum nýburum til samanburðar við myndir sem síðar verða teknar af augnbotnum í fyrirburum. Samhliða þessu á að finna bestu leiðirnar til að mynda augnbotna og greina súrefnisbúskap í fyrirburum en þannig má koma í veg fyrir að þeir fái þekktan og alvarlegan augnsjúkdóm sem getur valdið mikilli sjónskerðingu og jafnvel blindu. Notað er nýtt tæki sem er til staðar á augndeild Landspítalans og tekur mynd án þess að snerta augað. Tækið myndar miklu stærra svæði sjónhimnu augans en hefðbundnar augnbotnamyndavélar geta gert.

„Samanburður á þessum myndum heilbrigðra nýbura og fyrirbura gæti gefið upplýsingar um hvaða súrefnismettun sé eðlileg hjá fyrirburum á mismunandi þroskaskeiðum auk þess sem mælingar í fyrirburum gætu varpað ljósi á hvaða súrefnisgildi tengjast aukinni hættu á súrefnisskemmdum í sjónhimnum fyrirbura,“ segir Vigdís Magnúsdóttir, deildarlæknir á augndeild Landspítala, en hún hefur umsjón með rannsókninni.

Hún segir myndirnar magnaðar að því leyti að unnt sé að mæla súrefnismettun í æðum augans út frá myndunum einum. Hún bætir því við að þessar víðu sjónhimnumyndir af nýburum gætu aukið hæfni lækna til að greina augnsjúkdóma í frumbernsku. „Niðurstöður þessara rannsókna gætu bæði leitt til betri tækni til að greina sjúkdóm í fyrirburum og til betri súrefnismeðferðar á augnsjúkdómi fyrirbura vegna nákvæmari súrefnismælinga í augum.“

Einar Stefánsson og Vigdís Magnúsdóttir

Ætlunin með rannsókninni er að eignast safn af myndum af augnbotnum í heilbrigðum nýburum til samanburðar við myndir sem síðar verða teknar af augnbotnum í fyrirburum.

Einar Stefánsson og Vigdís Magnúsdóttir

Einar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítalans, stýrir rannsókninni en hann er mikilsvirtur vísindamaður og einn sá afkastamesti við háskólann. Rannsóknir Einars hafa margsinnis orðið kveikja að nýsköpun og sprotafyrirtækjum en hann hefur ítrekað verið verðlaunaður fyrir störf sín í þágu vísinda. Í haust tók hann t.d. við heiðursverðlaunum Danska augnlæknafélagsins fyrir afar mikilvægt framlag til rannsókna í augnlæknisfræði á alþjóðavettvangi.

Einar segir að hér sé verið að nýta nýja tækni, sem þróuð var á Íslandi, til að bæta meðferð hjá fyrirburum og jafnvel koma í veg fyrir alvarlegan augnsjúkdóm, sem hrjáir marga fyrirbura og blindar suma. Verkefnið er unnið í samvinnu við hollenska lækna og tæknimenn. „Við erum að byrja þetta klíníska verkefni og það munu líða nokkur ár áður en árangur verður fullljós,“ segir Einar.

Að þessari rannsókn kemur fjöldi aðila. Auk Vigdísar og Einars tekur Wouter Vehmeijer, læknir og doktorsnemi frá Háskólanum í Leiden, þátt í henni og Þórunn Scheving Elíasdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands og svæfingahjúkrunarfræðingur. Þá er rannsóknin unnin í samráði við Þórð Þórkelsson yfirlækni á Barnaspítalanum þar sem Kristín Nanna Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur aðstoðar við söfnun þátttakenda.

Netspjall