Skip to main content

Umhverfismál og trú

Umhverfismál og trú - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. febrúar 2019 17:00 til 19:00
Hvar 

Safnaðarheimili Neskirkju

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Samráðsvettvangur trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi, sem var stofnaður árið 2006, býður á málþing um umhverfismál og trú í samvinnu við Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

 

Frummælendur á þinginu eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftlagsráðs og fyrrverandi framkvæmdastjóri alþjóðasamvinnumála hjá skrifstofu Loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna, Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands og Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði. Séra Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju, mun stýra fundinum.

 

Umræða um umhverfismál og loftlagsbreytingar hefur verið áberandi í íslensku þjóðfélagi að undanförnu. Trúfélög og lífsskoðunarfélög láta sig þessi mál varða, þar sem þau snerta lífsgæði allra íbúa jarðar og framtíð hins byggilega heims. Margir trúarleiðtogar hvetja til umhugsunar og viðhorfsbreytinga í þessum efnum, bæði á alþjóðavettvangi og heima fyrir.

 

Samráðsvettvangurinn hefur að markmiði að stuðla að góðum og friðsamlegum samskiptum milli trú- og lífsskoðunarfélaga hér á landi, að efla umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Tuttugu trúfélög og lífsskoðunarfélög eru aðilar að samráðsvettvangi.

 

Með málþinginu vilja trú- og lífsskoðunarfélög, sem aðild eiga að Samráðsvettvanginum, vekja upp spurningar meðal almennings um þau gildi sem liggja til grundvallar friðsamlegu þjóðfélagi, sem gengur um umhverfi sitt af ábyrgðartilfinningu og virðingu. Málþingið er öllum opið og léttar veitingar verða framreiddar í hléinu.

Safnaðarheimili Neskirkju

Fimmtudaginn 21. febrúar 2019 kl. 17:00-19:00