Skip to main content

Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum

Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. september 2021 16:00 til 18:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

„Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum“ er yfirskrift viðburðar sem fram fer í Norræna húsinu föstudaginn 10. september kl. 16. Um er að ræða uppskeruhátíð eins viðamesta þýðingaverkefnis sem ráðist hefur verið í á vegum íslenskar bókaútgáfu á þessari öld.

Á árunum 2016 til 2020 gaf Bókaforlagið Bjartur út úrval tæplega eitt hundrað þýddra smásagna undir titlinum Smásögur heimsins. Var markmiðið að gefa íslenskum lesendum kost á að kynnast fjölbreytti sagnagerð fremstu höfunda frá Norður Ameríku, Rómönsku Ameríku, Eyjaálfu, Asíu, Afríku og Evrópu frá undanfarinni öld. Ritstjórar voru þau Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason, sem öll eru kennarar á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, en með þeim störfuðu hátt í 50 þýðendur, ásamt fjölda yfirlesara og ráðgjafa. Var kapp lagt á að sem sögur væru þýddar beint úr frummálinu eða þýðingar að minnsta kosti bornar nákvæmlega saman við frumtexta.

Með viðburðinum í Norrænu húsinu er ætlunin að líta um öxl en einnig mun ungt og upprennandi skálda og fræðafólk beina athygli að einstökum smásögum. Á stokk stíga fyrst fulltrúar ritstjórnar, þýðenda, forlags og gagnrýnenda; þau Kristín Guðrún Jónsdóttir, Sigrún Eiríksdóttir, Páll Valsson og Einar Falur Ingólfsson. Þá taka fjórir nemendur úr ritlist og almennri bókmenntafræði við keflinu; þau Árni Árnason, Elín Edda Þorsteinsdóttir, Marteinn Knaran Ómarsson og Vilborg Bjarkardóttir. Að dagskrá lokinni verða léttar veitingar í boði.

Viðburðurinn er hluti af dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík 2021. Aðgangur er ókeypis en einnig verður dagskránni streymt.

 

Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum

Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum