Skip to main content

Ráðstefna doktorsnema á Hugvísindasviði

Ráðstefna doktorsnema á Hugvísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. júní 2018 10:00 til 16:00
Hvar 

Árnagarður

Stofur 301 og 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þann 9. júní næstkomandi mun Félag doktorsnema og nýdoktora á Hugvísindasviði í samvinnu við Hugvísindasvið standa fyrir ráðstefnu doktorsnema á sviðinu.

Ráðstefnan hefst klukkan tíu en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun setja ráðstefnuna með ávarpi. Að því loknu verður fyrra af tveimur hringborðum dagsins en hið síðara eftir kaffihlé. Eftir hádegi verða samhliða málstofur með hefðbundnu sniði. Að ráðstefnu lokinni verður boðið upp á léttar veitingar.

Sautján doktorsnemar munu kynna verkefni sín sem fjalla um fjölbreytt svið Hugvísinda. Fyrri aldir spila stórt hlutverk á ráðstefnunni enda standa rannsóknir á fyrri öldum í blóma nú við Háskóla Íslands. Meðal annars munu fyrirlesarar fjalla um handrit Íslendingasagna og íslenskt mál á miðöldum en einnig verða flutt erindi um riddarasögur, sagnadansa og rímur. Þá verður efnismenning fyrri alda til umræðu en fluttir verða fyrirlestrar um miðaldainnsigli og handkvarnir.

Ein málstofa verður helguð íslensku nútímamáli en þar verður hægt að fræðast um dulin viðhorf á þeim sem tala með erlendum hreim og um rannsóknir á netnámi í íslensku sem öðru máli. Þá verður fluttur fyrirlestur um litaheiti í íslensku og merkingu þeirra.

Lýðræði og menning nútímans verða einnig til umræðu. Flutt verða erindi um hugmyndafræði Kvennalistans og um krísu fulltrúalýðræðisins og fjallað verður um þýðingar Guðbergs Bergssonar út frá femínískri þýðingafræði. Örforlög, sjálfstæð bókmenntaforlög sem stefna ekki að fjárhagslegum ávinningi, verða rædd og þá verður kynnt verkefni þar sem unnið er að skrásetningu kvikmyndasögu Íslands í gagnagrunn.

Hægt er að kynna sér dagskrána og lesa útdrætti í vefbæklingi eða á heimsíðu félagsins.

Facebook-viðburður ráðstefnunnar.

Nokkrir úr hópi doktorsnema við Hugvísindasvið.

Ráðstefna doktorsnema á Hugvísindasviði