Skip to main content

Pönkast í söfnum: Róttækni og Pönksafn Íslands

Pönkast í söfnum: Róttækni og Pönksafn Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
13. mars 2018 12:00 til 13:00
Hvar 

Þjóðminjasafnið

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hádegisfyrirlestur Þjóðminjasafns Íslands

Þriðjudaginn 13. mars kl. 12 flytur Guðrún Dröfn Whitehead lektor í safnafræði erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Í fyrirlestrinum fjallar Guðrún Dröfn um ný jaðarsamtök í Bretlandi sem nefnast Punk Museology, eða Pönk safnafræði. Fyrirlesturinn er fjórði í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins vor 2018. Verið öll velkomin.

Samkvæmt stefnuskrá Punk Museology, sögulega séð, endurspegla söfn vald ríkjandi meirihluta samfélags og útiloka með þeim hætti raddir fjölbreytilegs hóps fólks. Þau telja nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á grundvallarstarfsemi safna og rekstrarlegum hugsunarhætti starfsmanna. Með því móti megi (og verði) söfn að berjast gegn kúgun, misrétti, valdabeitingu og öðrum pólitískum, menningarlegum og samfélagslegum vandamálum. Samtökin telja að þetta geti átt sér stað ef söfn innleiði hugmyndafræði pönk-safnafræðinnar. Ofangreind stefnuskrá verður í kjölfarið tengd við Pönksafn Íslands, sem opnaði dyr sínar í nóvember 2016 á kvennaklósettinu í Bankastræti 0. Sýningin fellur mestmegnis að hefðbundnum sýningarháttum og uppsetningu safna. Þar má þó finna einstaka þætti sem gefa sýningargestum vald yfir túlkun og merkingu sýningarinnar á mun virkari þátt en almennt þekkist á menningarstofnunum af þessu tagi. Rannsóknin er byggð á vettvangsrannsókn höfundar, ásamt safnafræðilegum kenningum um hlutverk safna, miðlun og sýningargerð. Einnig verður byggt á kenningum um jaðarmenningu með áherslu á pönk og þeirri hugmyndafræði sem því tengist. Niðurstöður benda til þess að með áframhaldandi þróun og nýbreytni geti söfn hér á landi orðið enn mikilvægari samfélagslegur, pólitískur og menningarlegur vettvangur. Fyrirlesturinn var upphaflega haldinn á Þjóðarspeglinum, Háskóli Íslands 2017.

Guðrún Dröfn Whitehead er lektor í safnafræði. Hún er með doktorspróf í safnafræði frá School of Museum Studies, Leicester Háskóla í Bretlandi. Þar rannsakaði hún ímynd víkinga og víkingatímabilsins frá sjónarmiði starfsmanna og safngesta í Víkingaheimum, Reykjanesbæ og Yorkshire Museum, York, Englandi. Einnig greindi hún tengsl víkinga við íslenskt og enskt samfélag og sjálfsmynd. Guðrún stundar fjölbreytilegar rannsóknir sem tengjast jaðarhópum, dægurmenningu, þjóðernishyggju, safnfræðslu, samfélagslegu hlutverki safna og sjálfsmynd einstaklinga og þjóða. Meðal ritstjórnarstarfa hennar má nefna Fashioning Horror: Dressing to Kill on Screen and in Literature (Bloomsbury, desember 2017) og Museum and Society sérhefti, ‚A Child‘s Eye View of Museums: Remembering Elee Kirk‘ (2018). Einnig má nefna grein, ‚We Come from the Land of the Ice and Snow: Icelandic Heritage and its Usage in Present Day Society‘ sem gefin verður út í bókinni The Heritage Reader (Routledge, 2018) og bókina The Performance of Viking Identity in Museums: Useful Heritage in England, Iceland and Norway (Routledge, væntanleg 2020).

Guðrún Dröfn Whitehead er lektor í safnafræði. Hún er með doktorspróf í safnafræði frá School of Museum Studies, Leicester Háskóla í Bretlandi. Þar rannsakaði hún ímynd víkinga og víkingatímabilsins frá sjónarmiði starfsmanna og safngesta í Víkingaheimum, Reykjanesbæ og Yorkshire Museum, York, Englandi.

Pönkast í söfnum: Róttækni og Pönksafn Íslands