Skip to main content

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Fjörður, bærinn undir Bjólfi á Seyðisfirði

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Fjörður, bærinn undir Bjólfi á Seyðisfirði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. febrúar 2023 12:00 til 13:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ragnheiður Traustadóttir flytur erindi í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í fornleifafræði sem Félag fornleifafræðinga og námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands standa að. Fyrirlesturinn nefnist „Fjörður, bærinn undir Bjólfi á Seyðisfirði. Minjar frá 10. öld fram á 14. öld.“ 

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 023 í Veröld miðvikudaginn 8. febrúar kl. 12-13 og er öllum opinn.

Um erindið: 

Fornleifarannsókn hefur staðið yfir síðan sumarið 2020 undir hlíðum Bjólfs í landi landnámsbæjarins Fjarðar. Í þessum fyrirlestri
verður athyglinni beint að þeim minjum sem eru frá 10. öld fram á 14. öld en minjar frá 18. til fyrri hluta 20. aldar hafa líka verið
grafnar upp, þar á meðal bæjarstæði, mylla og útihús. Við uppgröfti haustið 2021 kom í ljós skriða frá því um 1100. Undir henni voru
mannvistarlög og fjögur kuml: Bátskuml, kvenkuml, hestskuml og karlkum með hesti. Fjöldinn allur af gripum fannst í kumlunum sem gefur innsýn í líf fyrstu íbúanna í Firði. Einstakar textílleifar fundust til dæmis í kvenkumlinu. Sumarið 2022 var grafið 60 metra sunnan við kumlateiginn þar sem kom í ljós mannvirki frá tveimur tímaskeiðum, annars vegar skáli, útihús og vefjarstofa frá 940-1100 og hins vegar miðaldabyggingar frá 1100-1300. Öskuhaugur kom einnig í ljós norðan við skálann og hefur verið aldursgreindur til árabilsins 940-1100. Fjöldi gripa hefur fundist í húsarústunum og öskuhaugnum, m.a. brýni, kljásteinar, snældusnúðar, skrautsteinar, eldstál, tinnur, hnífar, ýmsir járngripir, sylgjur, naglar, brot úr klébergsgrýtu, perlur, leirkerabrot, deiglubrot og töflur úr hnefatafli.

Afar sérstakt er að finna svo margvíslegar minjar um lífshlaup einstaklinga, bæði hvar þeir bjuggu og voru grafnir. Fornleifarannsókninni er ekki lokið og heldur hún áfram á svæðinu sumarið 2023. Miðaldir eru lítið rannsakaðar á Íslandi og Austurland hefur alltof lítið verið rannsakað. Þessi uppgröftur hefur því mikla þýðingu. Það er einstakt að rannsaka kumlin, útihúsin, túngarðinn og vistarverurnar sem eina heild. Þessu er, þrátt fyrir allt, náttúruhörmungum fyrir að þakka.

Ragnheiður Traustadóttir.

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Fjörður, bærinn undir Bjólfi á Seyðisfirði