Skip to main content

Námskeið og ráðstefna: Laxdæla saga og siðferðileg menntun

Námskeið og ráðstefna: Laxdæla saga og siðferðileg menntun - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. ágúst 2018 10:00 til 10. ágúst 2018 15:00
Hvar 

Árnagarður

Á301

Nánar 
Þátttökugjald: 3-5000 kr.

Boðið er upp á námskeið um Laxdæla sögu sem kennsluefni fyrir unglinga í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð dagana 9. og 10. ágúst 2018.

Námskeiðið:

  • er fyrir móðurmálskennara á unglingastigi grunnskóla og við framhaldsskóla og alla aðra sem hafa áhuga á Íslendingasögum sem námsefni fyrir unglinga.
  • hentar jafnt kennurum sem nota óstyttan texta Laxdælu og þeim sem styðjast við endursögn Gunnars Karlssonar sem nýlega hefur verið endurútgefin af Menntamálastofnun.
  • byggist á reynslu af rannsóknarverkefni sem við höfum unnið að í tvö ár í samráði við kennara á unglingastigi við þrjá grunnskóla.

Rannsóknarverkefnið sem námskeiðið byggist á snýst um að kanna hvernig:

  • kynning á siðferðilegum hugtökum glæðir áhuga unglinga á sögunni og hjálpar þeim að skilja hana.
  • rökræða um söguna gefur nemendum tækifæri til að ná valdi á siðferðilegum hugtökum og orðaforða um mannkosti eins og til dæmis heiðarleika, hugrekki, kærleika, sanngirni, sáttfýsi, sjálfsaga, þrautseigju og örlæti.

Við notum Laxdælu sem dæmi bæði vegna þess að hún var kennd við grunnskólana sem við störfuðum með og vegna þess að hún er gott dæmi um sögu sem kallar á samræður um innræti fólks og leggur opnar spurningar fyrir lesanda sinn en svarar þeim ekki. Námskeiðið gagnast samt kennurum sem kjósa að kenna aðrar Íslendingasögur.

Tímasetningar:

Fimmtudagur 9. ágúst: klukkan 15 til 17.
Föstudagur 10. ágúst:   klukkan 9 til 15 með hádegisverði milli klukkan 12 og 13.

Báða daga fléttast saman fyrirlestrar, samræða og verkefnavinna.

Á undan námskeiðinu verður ráðstefna og þeir sem sækja námskeiðið eru hvattir til að mæta líka á hana. Á ráðstefnunni verður horft yfir víðara svið en á námskeiðinu og fjallað um bókmenntir, listir og grunnþætti menntunar frá ýmsum sjónarhornum. Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 9. ágúst klukkan 10 til 14 með hádegisverði milli klukkan 12 og 13.

Þátttökugjald er 3.000 krónur fyrir námskeiðið og 3.000 krónur fyrir ráðstefnuna. Þeir sem skrá sig á hvort tveggja fá afslátt og greiða alls 5.000 krónur. Hádegisverður fyrri daginn er innifalinn í ráðstefnugjaldi og hádegisverður seinni daginn er innifalinn í námskeiðsgjaldi.

Nánari upplýsingar: Ef þú vilt spyrja einhvers í sambandi við námskeiðið eða ráðstefnuna er þér velkomið að senda tölvupóst á atlivh@hi.is

NÁMSKEIÐS- OG RÁÐSTEFNUGÖGN

_________________________________

Að námskeiðinu og ráðstefnunni standa: Atli Harðarson, Ólafur Páll Jónsson, Róbert Jack og Þóra Björg Sigurðardóttir.

Atli Harðarson er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Atli starfaði sem kennari og stjórnandi við framhaldsskóla um áratuga skeið áður en hann hóf störf við Háskóla Íslands.

Ólafur Páll Jónsson er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um lýðræði og réttlæti í tengslum við menntun, um skóla án aðgreiningar og menntastefnu. Hann hefur einnig ritað um sköpun, heimspeki náttúrunnar og stjórnmálaheimspeki og skrifað fjölda greina um heimspeki menntunar.

Róbert Jack er aðjunkt og nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hans fjallar um Platon en hann hefur einnig skrifað um heimspeki sem lífsmáta og heimspekilegar samræðuaðferðir. Róbert hefur kennt ýmsar námsgreinar í framhaldsskóla.

Þóra Björg Sigurðardóttir er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún hefur bæði lokið meistaranámi í heimspeki og meistaranámi í ritstjórn og fræðilegri útgáfu. Þóra hefur kennt íslensku og fleiri greinar í grunnskóla. Meðal viðfangsefna sem hún hefur fjallað um eru heimspekileg skrif kvenna á fyrri öldum.

Boðið er upp á námskeið um Laxdæla sögu sem kennsluefni fyrir unglinga í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð dagana 9. og 10. ágúst 2018.

Námskeið og ráðstefna: Laxdæla saga og siðferðileg menntun