Skip to main content

Miðbiksmat í jarðeðlisfræði - Cécile Adélie Ducrocq

Miðbiksmat í jarðeðlisfræði - Cécile Adélie Ducrocq - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. maí 2019 13:00 til 14:00
Hvar 

Askja

Fundarherbergi Jarðvísindastofnunar

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Titill: Jarðskorpuhreyfingar vegna jarðhita, höggunar og kvikuhreyfinga á Hengilssvæðinu 

Doktorsefni: Cécile Adélie Ducrocq 

Doktorsnefnd:

Halldór Geirsson, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands 

Þóra Árnadóttir, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands 

Guðni Axelsson, sviðsstjóri kennslu og þróunar hjá Íslenskum orkurannsóknum

Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Vala Hjörleifsdóttir, sérfræðingur í jarðskjálftarannsóknum hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Ágrip

Á Hengilssvæðinu á suðvesturhluta Íslands er fjöldi náttúrulegra og manngerðra ferla í gangi sem valda jarðskorpuhreyfingum. GNSS og InSAR gervitunglamælingar hafa sýnt að þessar jarðskorpuhreyfingar eru flóknar og margbreytilegar í tíma og rúmi. Helstu ferli sem valda jarðskorpuhreyfingum tengjast flekahreyfingum, jarðskjálftum, kvikuhreyfingum og breytingum í jarðhitakerfum Hengilssvæðisins. Á Hengilssvæðinu eru tvö virk eldstöðvakerfi ásamt því að þrír armar flekaskila Norður-Ameríku og Evrasíu flekanna mætast þar. Vökvar úr háhitakerfum eru nýttir til orkuframleiðslu á þremur vinnslusvæðum: á Nesjavöllum, Hellisheiði og í Hverahlíð og veldur þessi jarðhitavinnsla almennt staðbundnu landsigi. Á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar nemur landsig allt að 2,5 cm/ári, en minna sig mælist á hinum svæðunum. Í Húsmúla, skammt norðvestan Hellisheiðarvirkjunar, er dælt niður nokkru magni af jarðhitavökva úr framleiðslunni. Þessi niðurdæling tengist áhugaverðum breytingum í landrisi; skömmu eftir að niðurdæling hófst árið 2011 reis um örfáa sentimetra við Húsmúla, en hefur svo snúist yfir í sig þó svo að niðurdæling haldi áfram. Í austari hluta Hengilssvæðisins, í grennd við Ölkelduháls mældist tímabundið landris milli 2017 og 2018, sem gæti átt uppruna sinn í kvikuhreyfingum eða breytingum í jarðhitakerfinu. Þetta landris er hluti af áratuga sögu landriss og landsigs á þessu svæði, sem virðist eiga upptök töluvert dýpra en jarðskorpuhreyfingar sem vinnsla jarðhitakerfa veldur. Markmið doktorsverkefnisins er að þróa og beita líkönum af jarðskorpuhreyfingum og rannsaka eðli og víxlverkanir milli þeirra ferla sem eiga sér stað í jarðskorpunni.

Cécile Adélie Ducrocq

Miðbiksmat í jarðeðlisfræði - Cécile Adélie Ducrocq