Miðbiksmat í iðnaðarverkfræði - Ásgeir Örn Sigurpálsson | Háskóli Íslands Skip to main content

Miðbiksmat í iðnaðarverkfræði - Ásgeir Örn Sigurpálsson

Hvenær 
16. apríl 2019 14:00 til 16:30
Hvar 

VR-II

Stofa 157

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Titill: Mynsturröðun: Hagnýt aðferð við röðun valaðgerða

Doktorsefni: Ásgeir Örn Sigurpálsson

Doktorsnefnd:
Thomas Philip Rúnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Rögnvaldur J. Sæmundsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Edmund K. Burke, prófessor við Queen Mary University of London

Ágrip

Með hækkandi meðalaldri hefur álag á heilbrigðiskerfi aukist til muna en á sama tíma hefur kostnaður fyrir veitta þjónustu aukist. Til að bregðast við því hafa sjúkrastofnanir reynt að auka nýtingu auðlinda sinna. Skurðstofur eru þar engin undantekning enda er uppbygging og rekstur þeirra kostnaðarsamur. Þar af leiðandi er gerð skýr krafa um góða nýtingu á þeirra en samtímis þarf að taka mið af takmörkuðu legurými. Sé það ekki gert getur það leitt til frestana með skömmum fyrirvara með tilheyrandi óþægindum fyrir sjúklinga. 

Undanfarin ár hafa verið birtar þúsundir ritrýndra greina á sviði aðgerðarannsókna sem fjalla um röðun skurðaðgerða. Margar mismunandi leiðir og líkön hafa verið sett þar fram en þrátt fyrir það hefur reynst erfitt að finna hagnýtar leiðir sem leysa viðfangsefnið. Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að finna hagnýta aðferð sem raðar valaðgerðum á aðgerðardaga þannig að gegnumstreymi er hámarkað en þó þannig að yfirflæði myndist ekki á legudeildum. 

Í fyrirlestrinum verður farið yfir þær áskoranir sem eru fólgnar í innleiðingu og þróun hagnýtra bestunarlíkana við röðun skurðagerða og kynnt verður ný aðferð—mynsturröðun—sem þróuð var í verkefninu. Til að sýna fram á gæði aðferðarinnar verður lausn sem fengin var með aðferðinni borin saman við raunröðun hjá einni sérgrein á Landsspítala. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að hægt sé að ná auknu gengumstreymi og bættu flæði með notkun aðferðarinnar. Þrátt fyrir það eru enn miklir möguleikar fyrir hendi til að bæta aðferðina og kynntar verða mögulegar áframhaldandi rannsóknir.