Skip to main content

Meistarafyrirlestur í umhverfis- og auðlindafræði - Rósa Ólafsdóttir

Meistarafyrirlestur í umhverfis- og auðlindafræði - Rósa Ólafsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. júní 2020 11:00 til 13:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlesturinn verður á Zoom: 

https://eu01web.zoom.us/j/61322217856?pwd=YUJURy9DWXNHVEw4SXhqRnJjZTNIZz09

Meistaranemi: Rósa Ólafsdóttir

Heiti verkefnis: Stöðugar samsætur í daglega safnaðri úrkomu í Reykjavík og samband þeirra við loftslagsbreytur

___________________________________________

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinandi: Árný Erla Sveinbjörnsdóttir,  vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Einnig í meistaranefnd: Hans Christian Steen Larsen, rannsóknarmaður við Háskólann í Bergen

Prófdómari: Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði

Ágrip

Stöðugar samsætur súrefnis (δ18O) og vetnis (δD) í úrkomu geta hjálpað til við að skilja ýmis ferli vatnshringrásarinnar. Alþjóðlegur gagnagrunnur um samsætur úr mánaðar úrkomusýnum er tiltækur, en niðurstöður fyrir daglega safnaða úrkomu eru af skornum skammti og engar slíkar eru til fyrir Ísland. Í þessari rannsókn er greint frá samsætumælingum á  daglega safnaðri úrkomu í Reykjavík frá 31. júní 2016 til 17. febrúar 2020 og túlkun þeirra með tilliti til veðurfarsgagna frá Veðurstofu Íslands (VÍ). Mikill breytileiki mælist í daglegum gildum δ18O (-17,48 til -0,67‰),  δD (-132,3 til 1,3‰) og tvívetnisauka (d=δD-8δ18O) (-7.5 to +31.4‰). Marktæk neikvæð fylgni fannst milli tvívetnisaukans og hitastigs (r =-0.61±0.05) og eðlisraka (r =-0.56±0.05). Veikari fylgni mældist milli samsætugilda (δ18O) og fyrrgreindra veðurfarsþátta og er hún mismunandi mikil eftir árstíðum. Niðurstöður þéttrar sýnatöku úr lægð sem gekk hratt yfir Reykjavík sýna mikinn breytileika á samsætugildum, sem hægt er að tengja breytingum á hitastigi og eðlisraka. Samanburður á mældum gögnum við gögn úr loftslagslíkaninu ECHAM5-wiso, sem tekur inn samsætur við mat á úrkomu, sýnir að meiri upplausn í samsætugögnum myndi betrumbæta líkanið, sérstaklega hvað varðar tvívetnisaukann. Samband milli samsætugagna daglegra úrkomusýna og Norður-Atlantshafs-sveiflunnar (NAO) benda til neikvæðrar fylgni milli δ18O (og δD) og NAO-vísis, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Sú fylgni er þó ekki tölfræðilega marktæk. Verkefnið fól einnig í sér gerð gagnagrunns með öllum niðurstöðum samsætumælinga við Jarðvísindastofnun Háskólans frá 2006, til að auðvelda notkun gagnanna við frekari rannsóknir.