Skip to main content

Meistarafyrirlestur í landfræði - Ölvir Styrmisson

Meistarafyrirlestur í landfræði - Ölvir Styrmisson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. maí 2020 14:00 til 15:30
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlestrinum verður streymt: https://eu01web.zoom.us/j/67905433991

Meistaranemi: Ölvir Styrmisson

Heiti verkefnis: Eðli og ástæður gróðurbreytinga á hálendi við Blöndulón á síðustu tveimur árþúsundum

___________________________________________

Deild: Líf- og umhverfisvísindadeild

Leiðbeinandi: Egill Erlendsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Einnig í meistaranefnd: Sigrún Dögg Eddudóttir, nýdoktor við Uppsala háskóla

Prófdómari: Isabel C Barrio, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands

Ágrip

Frá landnámi hafa landnýting, loftslag og eldvirkni mótað íslensk gróðursamfélög. Gróðursaga láglendis er mun betur þekkt en saga gróðurs á hálendinu. Hér er rannsökuð gróðursaga síðustu tveggja árþúsunda á hálendi á norð-vesturlandi, með frjógreiningu sýna úr tveimur mýrarkjörnum. Tímaraðir kjarnanna byggja á gjóskulögum og geislakolsgreiningum. Sérstakt nýnæmi rannsóknarinnar er að beita almennum línulegum líkönum (GLM), og líkönum sem gera ráð fyrir bjögun vegna tímaröðunar sýna (GLARMA), til að greina áhrif af völdum umhverfisþátta (jarðvegsrof, gjóskufall, hitastig, beit) og samskipta plantna í mótun gróðursamfélaga.

Frjókornagreiningin sýndi að birki var sjaldgæft fyrir landnám og á miðöldum en þá voru víðitegundir og fjalldrapi mikilvægur hluti af gróðri svæðisins. Algengi sumargrænna runna jókst á hluta svæðisins á tímabilinu 1350 til 1700 e.Kr. en þeim fækkaði svo almennt og hlutur grasa og lyngtegunda jókst. Líkanagreiningin sýndi að beit, hitastig og gjóskufall voru mikilvægir umhverfisþættir fyrir plöntusamfélög við rannsóknastaðina. Tengsl jarðvegsrofs voru að mestu bundin við byrkninga, sem gæti skýrst af endurflutningi gróa úr rofnum (eldri) jarðvegi. Innbyrðis samskipti plantna og plöntuhópa komu sterkt fram í líkanagreiningunum. Sumargrænir runnar og grös voru áberandi í samkeppni við aðrar plöntutegundir og –hópa. Merki um bæði jákvæð og neikvæð sambönd milli sígrænna runna og annarra plantna sáust einnig. Krækilyng var stærsti hópur sígrænna runna en tengsl þess við aðrar plöntur hafa verið talin neikvæð, m.a. vegna eituráhrifa. Mikilvægi stara sem neikvæðs þáttar í plöntulíkönum gæti orsakast af breytileika í grunnvatnsstöðu og rakainnihaldi jarðvegs í nærumhverfi sýnatökustaðanna. Enginn einn lífrænn eða ólífrænn þáttur reyndist áberandi ráðandi í gróðurbreytingum eftir landnám.