Meistarafyrirlestur í jarðvísindum - Markus Koleszar | Háskóli Íslands Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðvísindum - Markus Koleszar

Hvenær 
29. maí 2019 15:00 til 17:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Meistaranemi: Markus Koleszar

Heiti verkefnis: Stapalaga eldfjöll í Vonarskarði á Miðhálendi Íslands og á Kolbeinseyjarhrygg

 ___________________________________________

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinandi: Páll Einarsson

Einnig í meistaranefnd: Bryndís Brandsdóttir, Ásta Rut Hjartardóttir og Gro Birkefeld Möller Pedersen

Prófdómari: Guðmundur Ómar Friðleifsson

Ágrip

Í austurhluta Vonarskarðs, í undirhlíðum Bárðarbungu, er þyrping af gosbergshrúgum sem eru flatar að ofan og minna þannig á dæmigerða stapa. Við athugun kemur hins vegar í ljós að hinn flati toppur á þessum fellum er ekki gerður úr hrauni, sem venjulega er talið skýra lögun dæmigerðra stapa. Nánari könnun á lögun þessara fella í Vonarskarði leiðir í ljós að þau líkjast mest neðansjávarfellum sem finna má á Kolbeinseyjarhrygg og víðar á eldvirkum svæðum neðansjávar. Lögun þeirra skýrist því ekki af nálægð við vatnsyfirborð eða yfirborð jökuls. Gerð var vettvangsrannsókn í Vonarskarði og tekin sýni af bólstrabergi fellanna. Fellin í Vonarskarði og á Kolbeinseyjarhryggnum voru kortlögð og mæld á stafrænum hæðarlíkönum. Gerð voru þversnið yfir fellin í mismunandi stefnur og lögun þeirra lýst með ýmsum kennistærðum, s.s. hæð, þvermáli, hlíðarhalla, rúmmáli, miðskekkju, hlutfalli hæðar og þvermáls, og fletju. Í ljós kom að fellin í Vonarskarði og á Kolbeinseyjarhrygg voru nauðalík. Vonarskarðsfellin voru að meðaltali 1444 m í þvermál, samanborið við 1704 m á Kolbeinseyjarhrygg. Meðalhæð yfir umhverfið var 147 m og 129 m á svæðunum tveimur, og rúmmál 0.183 km3 og 0.201 km3.

Aðrar kennistærðir voru einnig mjög líkar. Greinilegur munur kom hins vegar í ljós ef borið er saman við nokkra þekkta stapa á Íslandi.

Tilraunir sem gerðar hafa verið til að skýra lögun hraungúla varpa ljósi á hugsanlega myndunarhætti þessara bólstrabergsfella. Ef kornóttu efni með lítilli samloðun (til að líkja eftir bólstrum) er þrýst upp um lítið op á plötu, myndar það fyrst ólögulega hrúgu en breiðist síðan út til hliðanna og myndar flata köku með bröttum hlíðum, sem síðan mynda skriðuhalla. Lokaniðurstaðan er hrúga með flötu yfirborði og bröttum hlíðum sem líkist mjög fellunum í Vonarskarði og á Kolbeinseyjarhrygg.