Meistarafyrirlestur í jarðfræði: Þrívítt jarðfræðilíkan af jarðhitasvæðinu í Kröflu | Háskóli Íslands Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðfræði: Þrívítt jarðfræðilíkan af jarðhitasvæðinu í Kröflu

Hvenær 
15. september 2017 11:00 til 12:30
Hvar 

Askja

N-130

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Meistaranemi: Unnur Þorsteinsdóttir

Titill: Þrívítt jarðfræðilíkan af jarðhitasvæðinu í Kröflu; þróun verklags sem notast var við fyrir Pico Alto jarðhitasvæðið á Azor-eyju

Ágrip

Samþáttun og samantekt gagna og rannsókna af jarðhitasvæðum er oft á tíðum flókið ferli. Þrívíð líkangerð er mjög gagnleg við slíka vinnu, auðveldar samanburð og samtúlkun og dregur um leið úr óvissu þegar kemur að staðsetningu jarðhitaholna. Í þessu verkefni er útbúið þrívítt jarðfræðilíkan af jarðhitasvæði sem hefur lengi verið í vinnslu. Jarðhitasvæðið í Kröflu á Norðausturlandi er vel þekkt og á sér langa sögu rannsókna og nýtingar. Þrívítt jarðfræðilíkan af Kröflu var uppfært með eftirfarandi gögnum; nýjum skjálftagögnum (staðsetningu skjálfta og hraðalíkani), þrívíðu viðnámslíkani, flugsegulkorti og þyngdarkortum. Hluti jarðlagamælinga og svarfgreininga úr nokkrum borholum hafði ekki fyrr verið til á tölvutæku formi og var þeim niðustöðum bætt við líkanið. Vinna við líkanið varpar m.a. ljósi á áberandi stefnur sem sjást undir yfirborði og tengjast að öllum líkindum jarðfræðigerð svæðisins. Sú reynsla sem hlaust af uppfærslu líkansins, var notuð til þess að hanna ákveðið verklag sem hægt væri að nota á sambærilegum jarðhitasvæðum. Verklaginu var að lokum beitt við líkangerð á minna þekktu jarðhitasvæði, Pico Alto, sem staðsett er á eyjunni Terceira á Azor eyjum. Pico Alto er lítt þróað jarðhitasvæði sem lofar góðu sem slíkt. Fimm vinnsluholur hafa verið boraðar og niðurstöður settar framá tvívíðu formi. Niðurstöður voru teknar saman og settar fram í þrívíðu jarðfræðilíkani með það að markmiði að auka skilning á svæðinu. Líkönin tvö leiða að auki í ljós hvers konar rannsóknir gætu gagnast í framtíðinni til þess að auka skilning og betrumbæta nýtingu jarðhitasvæðanna.

Netspjall