Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Olivera Ilić

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Olivera Ilić - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. maí 2020 14:00 til 14:45
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlestrinum verður streymt: https://eu01web.zoom.us/j/66571909133       

Meistaranemi: Olivera Ilić

Heiti verkefnis: Áhættumat á jarðfræðilegum áhættuþáttum vegna kvikuborunar í Kröflu

___________________________________________

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinandi: Freysteinn Sigmundsson,vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Einnig í meistaranefnd: Þorvaldur Þórðarson, prófessor við Jarðvísindadeild og Yan Lavallée, prófessor við Háskólann í Liverpool.

Prófdómari: Kristján Jónasson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands

Ágrip

Hvað áhættur fylgja því að bora af ásettu ráði í kviku sem liggur í rótum eldfjalla? Þetta er lykilspurning fyrir alþjóðlega rannsóknarverkefnið Krafla Magma Testbed (KMT) en því er ætlað að auka skilning á kvikukerfum og tengslum þeirra við jarðhitakerfi í þeim tilgangi að bæta vöktun vegna eldgosa sem og nýtingu á jarðvarma. Til að ná þeim markmiðum er ætlunin að bora að yfirlögðu ráði í kviku á um 2 km dýpi á Kröflusvæðinu. Árið 2009 var af tilviljun borað í kviku á sama svæði þegar verið var að bora fyrstu djúpborunarholuna í tengslum við Íslenska djúpborunarverkefnið IDDP. Einnig hefur verið borað af ásettu ráði í óstorknaða kviku hrauntjarna á Hawaii nálægt yfirborði. Það er einsdæmi á heimsvísu að bora djúpt í rætur eldfjalla, gagngert í þeim tilgangi að bora í kviku. Við það vakna spurningar um þá áhættu sem því kann að fylgja. Tilgangur þessarar rannsóknar er að greina þá jarðfræðilegu áhættuþætti sem kunna að fylgja verkefninu. Notað er áhættufylki til að leggja mat á vægi þeirrar áhættu sem fylgir slíkri borun hvort sem gripið er til mótvægisaðgerða eður ei og að greina hver áhrifin gætu verið á líf og heilsu fólks og/eða umhverfið ef til atburðar kæmi. Jafnframt er lagt mat á hvort sú áhætta er ásættanleg eða ekki. Alls voru áhættuþættirnir átta talsins. Áhættumat var framkvæmt í kjölfarið og er það byggt á sérfræðiáliti 58 einstaklinga með bakgrunn í ýmsum greinum jarðvísinda, verkfræði og jarðborana. Mátu þeir, samkvæmt fyrirfram skilgreindum skala, hámarksáhrif atburðar annars vegar og hins vegar líkur á að viðkomandi atburður geti átt sér stað. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við skilgreint áhættufylki til að sjá undir hvaða áhættustig viðkomandi atburður fellur. Niðurstaðan er sú að áhættan af fyrirhugaðri borun í kviku í Kröflu er ásættanleg að teknu tilliti til mótvægisaðgerða. Jafnframt að þær aðgerðir gegni lykilhlutverki þar sem áhætta við tvo af þessum þáttum reyndist óásættanleg án mótvægisaðgerða, ef tekið er mið af þeim viðmiðunarmörkum sem skilgreind voru fyrir þessa rannsókn.