Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Bailey Michael Oconnell

Meistarafyrirlestur í jarðfræði - Bailey Michael Oconnell - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. júní 2020 14:00 til 15:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlesturinn verður á Zoom:  https://eu01web.zoom.us/j/64523656839

Meistaranemi: Bailey Michael Oconnell

Heiti verkefnis: Hörfun ísaldarjökulsins í Eyjafjarðarál samkvæmt fjölgeisla- og endurkastsmælingum

___________________________________________

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinandi: Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Einnig í meistaranefnd: Ásta Rut Hjartardóttir, aðjúnkt við Jarðvísindadeild

Prófdómari: Ívar Örn Benediktsson, aðjúnkt við Jarðvísindadeild

Ágrip

Fjölgeislamælingar af hafsbotninum ásamt há-upplausnar endurkastsmælingum úti fyrir Norðurlandi hafa varpað nýju ljósi á útbreiðslu og hörfunarsögu skriðjökla ísaldar. Ummerki jöklunar á svæðinu endurspegla skrið Skagafjarðarjökla norður í Skagafjarðardjúp, Eyjafjarðarjökla norður í Eyjafjarðarál og jökla frá Skjálfandaflóa norður í Skjálfandadjúp. Jökulkembur sýna að þessir megin jöklar sameinuðust og runnu saman a.m.k. 100 km út á landgrunnið, að sunnanverðum Kolbeinseyjarhrygg. Margbreytileg ummerki jöklunar má greina á hafsbotni í hinum ~80 km langa og 15-20 km breiða Eyjafjarðarál; þar liggja jökulgarðar af ýmsu tagi, jökulkembur og sérkennilegir V-laga hryggir eru sums staðar sundurskornir af miklum misgengjum. Landgrunnið er einnig alsett ísjakarákum, sumar hugsanlega frá ísaldarlokum. Misgengin endurspegla gliðnunar- (siggengi) og skerhreyfingar (sniðgengi) eftir að jöklar hurfu af svæðinu. Myndunarsaga V-laga hryggjanna er aðalumfangsefni þessa verkefnis. Hryggirnir eru að meðaltali 400-1500 m langir, 300-500 m breiðir, og mynda öfugt-V eftir skriðstefnu jökulsins. Lega hryggjanna eftir bugðum Eyjafjarðaráls endurspeglar einnig breytingar í skriðstefnu jökulsins. Hryggirnir stefna NNV-SSA í sunnanverðum Eyjafjarðarál en NNA-SSV í honum norðanverðum, þar sem þeir liggja samsíða um 10 km langrar jaðarurðar. Stefnubreytingin í norðanveðrum Eyjafjarðarál er líklega tilkomin vegna samruna skriðjökulsins úr Skagafjarðardjúpi við jökulinn í Eyjafjarðarál, sem ætla má, út frá landslagi, að hafi verið mun minni. Endurkastsmælingar sýna að V-laga hryggirnir eru úr hörðu efni (með háan endurkastsstuðul) og að þá er einnig að finna undir lausum setlögum í botni álsins. Sambærilegum V-laga jarðmyndunum hefur ekki verið lýst annars staðar frá. Hryggirnir eru líklegast myndaðir við framskrið jökuljaðarsins og hugsanlega tengdir aflögun á botnseti jökulsins upp í botnsprungur undan skriðþunga hans. Hliðar þeirra eru stundum mislangar og tengjast jökulkembum eða jaðargörðum sem liggja eftir skriðstefnu jökulsins.