Skip to main content

Meistarafyrirlestur í jarðeðlisfræði - Esteban Pineda

Meistarafyrirlestur í jarðeðlisfræði - Esteban Pineda - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. október 2018 15:00 til 17:00
Hvar 

Askja

Stofa 130

Nánar 
Allir velkomnir

Meistaranemi: Esteban Pineda

Heiti verkefnis: Eiginleikar og gerð jarðskorpunnar í eldstöðvarkerfi Eyjafjallajökuls samkvæmt rafsegulmælingum

___________________________________________

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinendur: Gylfi Páll Hersir, jarðeðlisfræðingur hjá ISOR, Ásdís Benediktsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá ISOR og Páll Einarsson, prófessor emerítus við Jarðvísindadeild.

Prófdómari: Hjálmar Eysteinsson, Reykjavík Geothermal

Ágrip

Aðferðum sem byggjast á rafsegulmælingum hefur verið beitt í auknum mæli á síðari árum til að ákvarða gerð og eiginleika jarðskorpunnar undir eldstöðvakerfum. Eðlisviðnám bergs er mjög háð vökvainnihaldi og ummyndunarstigi þess. Notkun rafsegulmælinga hér á landi hefur að mestu verið bundin við jarðhitaleit. Í þessari rannsókn er beitt tveimur gerðum rafsegulaðferða, MT-mælingum (Magnetotelluric) og TEM-mælingum (Transient Electromagnetic), til að kanna grunn eldstöðvarkerfis Eyjafjallajökuls með tilliti til viðnámsdreifingar. Gögnum var safnað í þremur mælingaferðum árin 2011, 2014 og 2016. Mælingarnar 2011 voru gerðar í samvinnu milli Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) og Dublin Institute of Advanced Studies (DIAS) og var safnað MT mælingum á 26 stöðum og TEM mælingum á 25 stöðum. Árin 2014 og 2016 gerðu stúdentar frá Háskóla Íslands MT-mælingar á 5 stöðum undir handleiðslu kennara frá ÍSORsor. Unnið hefur verið úr öllum þessum gögnum og gerð einvíð túlkun á þeim með tilliti til eðlisviðnáms. Niðurstöðurnar eru settar fram í formi dýptarsniða, láréttra sniða og korta sem sýna fasaþin. Einvíðu túlkunarlíkönin sýna vel leiðandi berglag á 1-3 km dýpi og annað á meira dýpi, 9-20 km. Grunnstæða lagið finnst undir meginhluta rannsóknarsvæðisins. Það er túlkað sem basaltlag þar sem jarðhiti hefur myndað ummyndunarsteindir, svo sem smektít. Djúpstæða lágviðnámslagið er einkum að finna undir norð-austurhluta svæðisins. Fyrri MT-mælingar hafa leitt í ljós svipað lag undir meginhluta Íslands. Eðli þessa lags hefur verið til umræðu lengi og umdeilt. Greining á fasaþin bendir til þess að einvíð túlkun sé viðeigandi fyrir stutta sveiflutíma (<10 s) en þrívíð túlkun sé heppilegri fyrir lengri sveiflutíma (>10 s). Stefna spanvigra bendir til þess að undir Eyjafjallajökli sé að finna grunnstæða, vel leiðandi bergmassa. Enn fremur má greina ANA-læga stefnuvirkni rafsegulþátta fyrir lengri sveiflutíma. Þetta gæti bent til þess að ríkjandi stefnur í uppbyggingu jarðlaga á svæðinu hafi áhrif á leiðni jarðlaga, A-V sprungusveimur og gangar í rótum eldstöðvarinnar sem hafa NA strikstefnu.