Skip to main content

Meistarafyrirlestur í iðnaðarverkfræði - Ernir Hrafn Arnarson

Meistarafyrirlestur í iðnaðarverkfræði - Ernir Hrafn Arnarson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. nóvember 2018 13:00 til 14:30
Hvar 

VR-II

Stofa 157

Nánar 
Allir velkomnir

Meistaranemi: Ernir Hrafn Arnarson

Heiti verkefnis: Möguleikar á nýtingu manngerðra hráefnisnáma fyrir endurvinnslu raftækja kannaðir með kvikum kerfislíkönum

___________________________________________

Deild: Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild

Leiðbeinendur: Dr. Harald Ulrik Sverdrup, prófessor og dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, lektor, bæði við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Prófdómari: Tómas Philip Rúnarssson, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Ágrip

Rafrænn úrgangur er sá flokkur úrgangs sem vex hraðast eins og staðan er í dag. Í þessu rafræna úrgangsstreymi má finna mikið magn og fjölda af málmum. Eðalmálmar, platínumálmar, kopar og aðrir sjaldgæfir málmar eru mikilvægir fyrir tæknilega virkni raftækjanna. Mörg raftæki í samfélaginu mætti nýta sem auðlind fyrir þessa málma með því að beina raftækjum í hágæðaendurvinnslu. Þessi nýting á samfélagslegum auðlindum má kalla manngerða hráefnanámu.

Gæði málmgrýtis í námum eru á niðurleið og á sama tíma eykst magn raftækja í umferð. Þessi þróun eykur möguleika á endurvinnslu á raftækjum. Stór hluti af þessum rafræna úrgangi streymir í dag frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja í trássi við alþjóðlegar samþykktir. Þangað er úrganginum varpað eða málmarnir endurunnir með notkun frumstæðra aðferða sem fylgir mikil mengun.

Í þessum rafræna úrgangi eru einnig málmar sem eru mikilvægir við framleiðslu á ýmiss konar háþróuðum tækjum, t.d. tækjum tengdum grænni orku. Framboð á þessum málmum kemur oftar en ekki frá örfáum löndum og endurvinnsla getur hjálpað til við að draga úr óáreiðanleika í framboði þessara málma.

Endurvinnsla á raftækjum var skoðuð út frá aðferðum kvikra kerfislíkana. Flæðirit og orsakatengslarit voru gerð til að gefa heildræna sýn á kerfið. Kvikt kerfislíkan var sett upp og hermt í forritinu STELLA®, til að greina mögulegan hag af því fyrir þróuð ríki að endurvinna raftæki út frá fjárhagslegum, umhverfislegum og strategískum sjónarmiðum.