Skip to main content

Meistarafyrirlestur í byggingarverkfræði - Gísli Steinn Arnarson

Meistarafyrirlestur í byggingarverkfræði - Gísli Steinn Arnarson    - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. janúar 2020 17:00 til 19:00
Hvar 

VR-II

Stofa 155

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Meistaranemi: Gísli Steinn Arnarson

Heiti verkefnis: Rakaástand steinsteypu í íslenskum útvegg

___________________________________________

Deild: Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Leiðbeinandi: Björn Marteinsson, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Einnig í meistaranefnd:Karsten Iversen, verkfræðingur

Prófdómari: Eiríkur Ástvald Magnússon, byggingarverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu

Ágrip

Steyptur útveggur, sem einangraður er að innan með álímdri einangrun á steyptan vegg og múrað innan á einangrun, kallast íslenskur útveggur. Þegar veggur er einangraður með þessum hætti sýnir reynslan að viss hætta er á rakaþéttingu á skilum einangrunar og steinsteypu í íslensku veðurfari. Í þessari rannsókn var raka- og hitaástand slíks veggjar athugað með bæði tímaháðum og tímaóháðum aðferðum með áherslu á mati á því hvort hætta væri á rakaþéttingu.  Í þessari greiningu var athugað hvað mismunandi forsendur er varða efniseiginleika hefðu mest áhrif á niðurstöður útreikninga. Niðurstöður úr tímaóháðri aðferð (aðferð Glaser) voru þær að rakaþétting ætti sér stað. Í þremur af fjórum tilfellum sem þannig voru skoðuð náði rakaþétting ekki að þorna út yfir árið, þ.a.l. safnast raki upp á milli ára. Í tímaháðri greiningu, þar sem tekið er tillit til rakarýmdar efna og breytilegs umhverfisástands var forritið WUFI® Pro notað. Í forritinu er rakaflutningur annarsvegar metinn útfrá gufuflutningsmótstöðu (stigull rakaflutnings þá hlutþrýstingur loftraka á þykktareiningu) og hinsvegar vökvaflutningsstuðlum (stigull rakaflutnings þá efnisraki á þykktareiningu).  Upplýsingar um þessa efnisstuðla fyrir íslenska steypu eru af mjög skornum skammti, og í slíku tilviki er í forritinu notuð nálgunarjafna útfrá mældu gildi á vatnsísogi. Helstu niðurstöður þessarar greiningar voru þær að rakaþétting ætti sér ekki stað í veggnum, jafnvel þótt prófuð væru mjög mismunandi gildi á efniseiginleikum. Svo virðist sem nálgun forritsins á reiknisgildum fyrir vökvaflutningsstuðla fyrir íslenska steypu sé ekki góð og niðurstöðum útreikninga fyrir byggingarhluta úr íslenskri steypu beri að taka með fyrirvara.