Skip to main content

Meistaradagur náttúruvísinda

Meistaradagur náttúruvísinda - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. janúar 2020 13:00 til 14:30
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Öll velkomin

Meistaranemar við Líf- og umhverfisvísindadeild og Jarðvísindadeild kynna meistaraverkefni sín.

Eftirfarandi nemendur flytja erindi á deginum:

13:05  Sunna Harðardóttir

Heiti verkefnis: Möttulþættir undir Íslandi: dreifing og jarðefnafræðileg einkenni

Deild: Jarðvísindadeild

Leiðbeinendur: Sæmundur Ari Halldórsson, fræðimaður á Jarðvísindastofnun Háskólans

Einnig í meistaranefnd: Matthew G. Jackson, prófessor við UCSB

Ágrip

Samsætuhlutföll geislamyndaðra samsætna og aðalefnagreiningar í íslensku bergi eru notaðar til að meta samsetningu möttul endaþátta og útbreiðslu þeirra í íslenska möttulinum. Gagnagrunnur, sem nefnist the Icelandic Volcanics Isotopic Database (IVID) og inniheldur áður birt 87Sr/86Sr, εNd, εHf, 206Pb/204Pb, 207Pb/204Pb, 208Pb/204Pb, 187Os/188Os, 3He/4He, δ18O og U-Th samsætuhlutföll var tekin saman. Þar að auki var viðeigandi aðal- og snefilefnagreiningum bætt við gagnagrunninn. Samsætuhlutföll í gagnagrunninum voru metinn og hluti gagnanna var fjarlægður, vegna framfara í efnagreiningartækni, aðalefna samsetningu bergsins eða öðrum eiginleikum sýnanna. Hreinsaði gagnagrunnurinn var notaður til að meta samsætuhlutföll geislamyndraða samsætna í íslensku bergi staðbundið, með því að nota rýmdargreiningar og setja niðurstöður þeirra fram á kortum. Kortin sýna að berg frá gosbeltum landsins er almennt efnafræðilegra auðugra (hærri 87Sr/86Sr og 206Pb/204Pb og lægri 143Nd/144Nd og 176Hf/177Hf) heldur en berg frá gliðnunarbeltum landsins. Frumstætt berg (≥ 8 wt% MgO) sýnir vensl milli aðalefna og samsætuhlutfalla, þar sem jarðefnafræðilega auðgað berg frá gosbeltum landsins hefur hærri FeOT, TiO2, Na2O og K2O og lægri SiO2, Al2O3, CaO og Na2O/TiO2. Útreikningar með PRIMELT sýna að jarðefnafræðilega auðgað berg frá gosbeltum landsins myndast almennt við lægra hitastig og bráðnunarhlutfall, sem er í samræmi við söfnun á jarðefnafræðilega auðugum “dropum” við lægra bráðnunarhlutfall; jarðefnafræðilega snauðari berg frá gliðnunarbeltum landsins sýna hærra bráðnunarhlutfall við hærri hitastig, sem er í samræmi við þynningu á jarðefnafræðilega auðugum “dropa”bráðum, vegna bráðnunar á jarðefnafræðilega snauðari og torbræddari möttli. Samsætuhlutföll hafa verið notuð til að skilgreina þætti í íslenska möttlinum, en ekki er hægt að nota aðalefna samsetningu bergsins til að greina á milli allra möttulþáttanna. Blöndun milli möttulþáttanna innan íslenska möttulsins og bráðnunarskilyrði þ.e. hitastig möttulsins, þrýstingur og bráðnunarhlutfall, stjórna hvaða möttulþáttum er safnað hverju sinni.

13:25   Hermann Dreki Guls

Heiti verkefnis: Uppsöfnun og áhrif af fæðubornu Benzo(a)Pyrene á grjótkrabba (Cancer irroratus) í gegnum mengaðan krækling (Mytilus edulis)

Deild: Líf- og umhverfisvísindadeild

Leiðbeinandi: Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum

Einnig í meistaranefnd: Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Ágrip

Markmið verkefnisins var að meta notagildi grjótkrabbans (Cancer irroratus) við mengunarrannsóknir og umhverfisvöktun á fjölhringa vetniskolefni (PAH) þar sem viðbrögð dýranna gagnvart fæðuborinni Benzo(a)Pyrene (BaP) mengun voru mæld með bíómarkerunum 7-ethoxyresorufin O-deethylase (EROD), glutathione peroxidase (GPx) og glutathione (GSH) í meltingarkirtli krabbans. Kræklingur (Mytilus edulis) var mengaður með mismunandi styrk BaP í sjó í 14 daga (2, 20 og 50 µg/L) sem skilaði sér í 11,5, 192 og 417 µg BaP/g þurrvigt í vef kræklings. Krabbarnir voru fóðraðir daglega í 21 dag með menguðum kræklingi og fékk hver krabbi ca. 4,7 g (votvigt) af kræklingavef á dag. Uppsöfnun og niðurbrot (e. assimilation) BaP í kröbbunum var áæltað < 1%.

Bíómarkerarnir voru mældir í kröbbunum eftir 3 og 21 dag. Eftir 3 daga voru flest gildin lægri í menguðum kröbbum í samanburði við viðmiðunarhópana. Það er líklega vegna sveltis krabbanna í upphafi, sem þá endurspeglast í minni virkni ensímakerfa/afeitrunarferla og lakari varnarkerfum. Eftir 21 dag kom fram marktæk hækkun í EROD virkni og GSH magni hjá kröbbum sem fengu menguðustu fæðuna og jafnframt höfðu þeir marktækt minna prótínmagn. Næmni bíómarkeranna reyndist ekki nægjanleg gagnvart BaP mengun í grjótkröbbum til að hægt sé að mæla með þessum aðferðum fyrir þessa tegund til vöktunar á slíkri mengun. Hins vegar koma hér fram í fyrsta skipti niðurstöður mælinga á lífeðlisfræðilegum viðbrögðum grjótkrabba gagnvart PAH efni, annars vegar eftir svelti og hins vegar eftir viðvarandi mengunarálag (21 dagur) í gegnum fæðu.

13:45   Rúna Björk Smáradóttir

Heiti verkefnis: Bakteríusamsetning og virkni í hélumosalífskurn

Deild: Líf- og umhverfisvísindadeild

Leiðbeinandi: Ólafur S. Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Einnig í meistaranefnd: Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Ágrip:

Lífskurn sem einkennist af soppmosanum Hélumosa (Anthelia juratzkana) er útbreidd á hálendi Íslands. Í þessari rannsókn var bakteríusamsetning og virkni lífskurnarinnar í ýmsum vistgerðum á fjórum svæðum á hálendi Íslands skoðuð með notkun á háhraða DNA raðgreiningu á víðerfðamengi skurnarinnar. Greinilegur munur sást á milli lífskurnarinnar og undirliggjandi jarðvegslags bæði m.t.t. flokkunarfræði og starfrænna þátta.
Algengustu fylkingar lífskurnarinnar voru Acidobacteria, Actinobacteria og Proteobacteria. Fylkingarnar Acidobacteria, Armatimonadetes, Bacteroidetes, Chloroflexi og Cyanobacteria eru marktækt algengari í lífskurninni en í neðra jarðvegslagi. Algengustu ættkvíslir lífskurnarinnar voru Ktedonobacter sem tilheyrir fylkingunni Chloroflexi, Bradyrhizobium sem telst til Proteobacteria og Candidatus Solibacter sem tilheyrir fylkingunni Acidobacteria.
Í rannsókninni fannst enginn munur á bakteríusamsetningu milli ólíkra vistgerða, sýnatökustaða og árstíða.
Gen sem ákvarða ýmis lífvirk ferli voru algengari í lífskurninni en í undirliggjandi jarðvegslagi, meðal annars sykruefnaskipti sem voru meðal algengustu ferla, ljóstillífun, hreyfanleiki og efnasækni, og efnaskipti kalíums og brennisteins.

Viðburður á facebook