Lokaritgerðir í sagnfræði: Hitt húsið, strand Gautaborgar og mótmæli gegn stríðinu í Írak | Háskóli Íslands Skip to main content

Lokaritgerðir í sagnfræði: Hitt húsið, strand Gautaborgar og mótmæli gegn stríðinu í Írak

Hvenær 
16. maí 2018 16:00 til 17:30
Hvar 

Árnagarður

Stofa 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kynning á nýjum MA-ritgerðum í sagnfræði fer fram í Árnagarði, stofu 311, miðvikudag 16. maí kl. 16-17:30. Dagskráin er sem hér segir og öllum frjáls aðgangur á meðan húsrúm leyfir.

Gylfi Már Sigurðsson. Hitt húsið: Upphaf, áhrif og starfsemi fyrsta ungmennahússins á Ísland. Leiðbeinandi: Erla Hulda Halldórsdóttir.  

Hitt húsið var fyrsta ungmennahúsið á Íslandi þegar það var stofnað árið 1991. Markmið ritgerðarinnar er tvíþætt. Annars vegar að kanna aðdraganda og uppruna ungmennahúsa á Íslandi og setja í samhengi við hugmyndir um unglingamenningu og breytta samfélagsgerð á síðustu áratugum 20. aldar.

Hins vegar að rekja sögu Hins hússins og þess starfs sem þar hefur verið unnið.

Halldór Baldursson. Þegar fylgdarskipið fórst. Aðgerðir yfirvalda á Íslandi vegna strands herskipsins Gautaborgar á Hraunsskeiði 1718. Leiðbeinandi: Már Jónsson.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig yfirvöld hér á landi tóku á þeim verkefnum sem leiddi af strandi herskipsins Gautaborgar við Hraunsskeið í Ölfusi í nóvember 1718.

Vegna styrjaldar milli Danakonungs ríkis og Svíþjóðar sigldu Íslandskaupför í skipalestum með herskipafylgd á árunum 1714-1720. Þegar fylgdarskipið Gautaborg fórst þurftu 174 skipbrotsmenn að hafa vetursetu á Íslandi. Yfirvöld Íslands stóðu frammi fyrir stórum, aðkallandi og óvenjulegum verkefnum. Stærsta verkefnið var að útvega skipverjum húsaskjól og mat og senda þá utan til áframhaldandi herþjónustu, sem gat í fyrsta lagi orðið haustið 1719. Sýslumaður skyldi rannsaka tildrög skiptapans og láta bjarga öllum verðmætum sem unnt var, en flakið var konungs eign Niels Fuhrmann kom til landsins sem amtmaður síðsumars 1718. Hann stjórnaði aðgerðum vegna strands Gautaborgar. Skipbrotsmönnum var komið fyrir í Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

Landfógeti greiddi fæðispeninga til þeirra sem hýstu skipbrotsmenn, alls 4.421 ríkisdal. Sýslumaður Árnessýslu hélt héraðsþing (sjópróf) til að rannsaka skiptapann. Verðmætum var bjargað eftir því sem tækjabúnaður leyfði. Skipbrotsmenn voru sendir utan 1719 með kaupskipum og fylgdarskipi. Niðurstaða rannsóknarinnar er að yfirvöldum á Íslandi tókst prýðilega að leysa þau erfiðu verkefni sem leiddi af strandi Gautaborgar.

Það má að verulegu leyti þakka styrkri stjórn Niels Fuhrmanns amtmanns.

Kristján Páll Guðmundsson. „Ekki í okkar nafni!“ Mótmæli gegn stríðinu í Írak, 2003–2008. Leiðbeinandi: Valur Ingimundarson.

Ritgerðin fjallar um mótmæli gegn Íraksstríðinu og umræðuna sem fylgdi í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna. Félagslegar hreyfingar sem beittu sér gegn stríðinu með því að skipuleggja mótmælaaðgerðir eru þar í brennidepli. Sýnt verður fram á að mótmælahreyfingin gegn Íraksstríðinu hafi haft töluverð áhrif á umræðuna í kringum stríðið og tekist að ýta undir fjölmennar mótmælaaðgerðir, en hafi engu að síður ekki tekist að breyta afstöðu stjórnvalda í málinu. Mótmæli voru haldin með vikulegu millibili í ársbyrjun 2003 og beindust í upphafi gegn Bandaríkjamönnum, en síðar gegn íslenskum stjórnvöldum. Kenningarleg nálgun tekur mið af rammagreiningu sem er beitt við að rannsaka röksemdir mótmælahreyfingarinnar gegn stríðinu og hvernig íslensk stjórnvöld færðu rök fyrir stuðningi Íslands við stríðið eftir að ljóst varð að Írakar höfðu engin gereyðingarvopn.

Sýnt verður að af þeim samtökum sem skipulögðu mótmæli gegn Íraksstríðinu var hópurinn Átak gegn stríði áhrifamestur og að öðrum hópum hafi ekki tekist að móta umræðuna með sama hætti.

Stuðningur ríkisstjórnarinnar við stríðið hafði afgerandi áhrif á mótmælahreyfinguna. Innrömmun mótmælenda sem hafði í upphafi miðast við efnahagslegar og siðferðilegar röksemdir breyttist og tók að snúast um meint ólögmæti og ólýðræðislegt eðli gjörða ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir harða gagnrýni mótmælenda hélt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks velli í kosningunum árið 2003 og í kjölfarið dró úr skipulögðu andófi gegn Íraksstríðinu.

Árnagarður

Lokaritgerðir í sagnfræði: Hitt húsið, strand Gautaborgar og mótmæli gegn stríðinu í Írak

Netspjall