Skip to main content

Lífsgæði einstaklinga sem hafa nýlega greinst með lungnakrabbamein

Lífsgæði einstaklinga sem hafa nýlega greinst með lungnakrabbamein - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. mars 2018 14:00 til 15:30
Hvar 

Stapi

stofa 107

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Lífsgæði einstaklinga sem hafa nýlega greinst með lungnakrabbamein: Áhrif félagslegs stuðnings og seiglu

Harpa Sóley Snorradóttir ver meistaraverkefni sitt í lýðheilsuvísindum frá Læknadeild.

Prófdómari er Sigríður Gunnarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild.

Leiðbeinandi Hörpu er Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild, og aðrir í meistaranefnd eru Hrönn Harðardóttir og Hrefna Magnúsdóttir.

Allir velkomnir.

Ágrip:

Nýgreiningar og dánartíðni vegna lungnakrabbameins er enn hæst allra krabbameina í hinum vestræna heimi ef undanskilin eru nýgreiningar brjóstakrabbameina og blöðruhálskirtilskrabbameina. Að greinast með krabbamein hefur mikil áhrif á líðan sjúklinga en rannsóknir benda til verulegrar aukningar í tíðni ýmissa geðraskana á borð við kvíða og þunglyndis meðal nýgreindra krabbameinssjúklinga. Viðbrögð einstaklinga við greiningu krabbameins eru hins vegar mjög ólík, hugsanlega vegna mismunandi bjargráða og/eða seiglu einstaklinga sem og aðgengi að félagslegum stuðningi.

          Markmið þessara rannsóknar var að kortleggja lífsgæði nýgreindra einstaklinga með lungnakrabbamein og meta áhrif félagslegs stuðnings og seiglu á alla meinþætti lífsgæða þeirra. Rannsóknarsniðið er framsýn ferilrannsókn. Þátttakendur voru 35 einstaklingar sem gengust undir greiningarrannsóknir vegna gruns um lungnakrabbamein. Þeir svöruðu spurningalistum um félagslegan stuðning og seiglu fyrir staðfesta greiningu og einnig spurningum um lífsgæði eftir að greining lungnakrabbameins var staðfest en áður en meðferð var hafin. Félagslegur stuðningur var metin með Berkman Syme Social Network Index (SNI) spurningalistanum og seigla var mæld með Connor Davidson seiglu skemanu (CD-RISC-10) fyrir greiningu lungnakrabbameins. Lífsgæði voru metin með spurningum úr Functional Assessment of Cancer Therapy-Lung (FACT-L). Meðalaldur þátttakenda var 71 ár og kynjahlutfallið var jafnt. Almennt tjáðu einstaklingar yngri en 70ára meiri félagslegan stuðning miðað við þá sem voru eldri en 70 ára (p=0,02) en engin önnur tölfræðilega marktæk tengsl sáust á milli bakgrunnsþátta og félagslegs stuðnings og seiglu. Konur tjáðu meiri virkni (FWB) samkvæmt FACT-L lífsgæðakvarðanum samanborið við karla (p=0,05). Jákvæð tengsl voru á milli hærri félagslegs stuðnings fyrir greiningu og tengsla við vini og fjölskyldu (SWB) eftir greiningu (p=0,02). Engin tölfræðilegur munur sást á milli seiglu og lífsgæðaþátta. Aftur á móti voru vísbendingar um að einstaklingar með meiri seiglu fyrir hefðu betri andlega (EWB) og almenna líðan (FACT-G) eftir greiningu, þegar leiðrétt hafði verið fyrir aldri og kyni (p=0,09). Þetta er fyrsta rannsóknin á Íslandi á lífsgæðum einstaklinga með nýgreint lungnakrabbamein. Þrátt fyrir fáa þátttakendur og takmarkað tölfræðilegt afl gefa niðurstöðurnar vísbendingar um að seigla og félagslegur stuðningur geti haft jákvæð áhrif á lífsgæði einstaklinga skömmu eftir greiningu lungnakrabbameins.