Skip to main content

Kynning á MA-ritgerðum í sagnfræði: Stéttarfélög, húsaskjól og tengsl Íslands og Spánar

Kynning á MA-ritgerðum í sagnfræði: Stéttarfélög, húsaskjól og tengsl Íslands og Spánar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
3. október 2017 16:00 til 17:30
Hvar 

Aðalbygging

Stofa 207

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kynning á þremur MA-ritgerðum í sagnfræði fer fram í Aðalbyggingu 207 þriðjudaginn 3. október kl. 16. Allir velkomnir.

Kári Gylfason: Stéttarfélög í fljótandi nútíma. Þjóðfélagsþróun á 20. og 21. öld í ljósi kenninga um síðara skeið nútímans.

Leiðbeinandi: Guðmundur Hálfdanarson.

Í ritgerðinni er fjallað um stöðu stéttarfélaga á Íslandi í ljósi þjóðfélagsþróunar á 20. og 21. öld. Til grundvallar liggja kenningar félagsfræðinganna Anthony Giddens og Zygmunt Baumans um fyrra og síðara skeið nútímans. Kenningarnar og fræðilegur bakgrunnur þeirra eru reifaðar, lykilhugtök kynnt og þýdd, og rætt hvernig nota megi kenningar og hugtök Giddens og Baumans til að fjalla um sagnfræðileg viðfangsefni. Skýrt er frá því hvernig líta megi á stéttarfélög sem eina þeirra stofnana sem verða til á fyrra skeiði nútímans og fjallað um þær áskoranir sem stéttarfélög standa frammi fyrir þegar síðara skeiðinu – „fljótandi nútíma“ – vindur fram. Loks eru skoðaðar tölulegar heimildir um þróun íslensks vinnumarkaðar, til að svara því hvort hann sé að verða meira óviss og hvikull og hvort stéttarfélög hafi þróast frá því að vera stofnun í gegnheilum nútíma yfir í það að vera stofnun í óvissri stöðu í síbreytilegum fljótandi nútíma. Einnig er reynt að svara þeirri spurningu hvort hægt sé að nota kenningar og hugtök Baumans og Giddens um nútímann til að fjalla um þjóðfélagsþróun á Íslandi og 20. og 21. öld.

Sólveig Ólafsdóttir, Kortið. Efnismenning allsleysis í Hafnarfirði og húsaskjól hinna fátæku.

Leiðbeinandi: Sigurður Gylfi Magnússon.

 

Rannsóknin beinir sjónum að fátækum íbúum í Hafnarfirði á árunum í kringum aldamótin 1900 og þó einkum húsnæði þeirra, efnislegum eigum og hversdagslífi. Einnig var kannað hvaða áhrif heldur nöturlegar efnahagsaðstæður höfðu á líkamlega og andlega hagi fólks. Lagt var upp með herforingjaráðskort af Hafnarfirði sem var mælt árið 1902 og teiknað ári síðar. Með því að leggja kortið og svo ljósmyndir til grundvallar er gerð tilraun til að „myndgera“ vettvang rannsóknarinnar og nýta til þess einnig opinberar heimildir sem og ættfræðiupplýsingar. Með því að skerpa sjónarhorn rannsóknarinnar með kenningum og hugtökum fræðikvennanna Rachel Fuchs og Barböru Rosenwein er fyrirliggjandi heimildagrunnur sundurgreindur til að draga fram efnisleg einkenni á húsnæði og húsaskjóli hinna fátæku í Hafnafirði. Sérstök áhersla er lögð á atbeina og drifkraft og svo andstæðuna; uppgjöf og fjörbrot. Þá er kannað hvaða áhrif það hafði að missa fyrirvinnuna. Loks er gerð tilraun til að meta þá kenningu hvort allsleysi felist í raun í því þegar fátækt er farin að hafa alvarlega líkamlegar skerðingar í för með sér. Ein helsta niðurstaða rannsóknarinnar er að heilsuleysi húsmæðra gat haft skelfilegar afleiðingar fyrir fátækar fjölskyldur en á sama tíma höfðu einstæðar konur, hvort sem þær voru ekkjur eða einstæðingar töluvert meiri möguleika á afkomuúrræðum en fátækir karlar.

Stefán Svavarsson, Frá saltfiski til sólarferða. Stjórnmála- og viðskiptatengsl Íslands og Spánar 1939-1959.

Leiðbeinandi: Valur Ingimundarson.

Íslendingar vildu ólmir hefja viðskipti við Spánverja á ný eftir seinni heimsstyrjöld. Spánverjar kröfðust þó stuðnings Íslendinga á alþjóðavettvangi í verki áður en af viðskiptum gæti orðið, sem leiddi til þess að Ísland varð fyrsta ríki Evrópu til að styðja Spánverja á vettvangi Sþ. Ákvörðun Íslendinga er dæmi um hvernig raunhyggja (e. realism) hefur áhrif á ákvarðanatöku ríkja. Ákvörðunin var auk þess óvenjuleg ef tekið er mið af kenningum um utanríkismál smáríkja og er til marks um tök útgerðarfélaganna á utanríkisþjónustu Íslands á þessum tíma. Margir íslenskir stjórnmála- og embættismenn áttu auk þess persónulegra hagsmuna að gæta. Nýr viðskiptasamningur Íslands og Spánar var vöruskiptasamningur sem reyndist Íslendingum óhagstæður. Yfirvöld héldu áfram að ganga erinda útgerðar og hvöttu íslenskan almenning til að kaupa spænskar vörur og efla þannig fiskútflutning, jafnvel þó spænsku vörurnar væru dýrar og af lökum gæðum. Til að efla viðskipti landanna stóð íslenska ríkið einnig fyrir fyrstu pakkaferðunum til Spánar og voru það fyrstu kynni Íslendinga af slíkum ferðum til landsins.

 

Aðalbygging Háskóla Íslands