Skip to main content

Kristján Árnason: Upphaf íslenskrar tungu — formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum

Kristján Árnason: Upphaf íslenskrar tungu — formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. nóvember 2017 16:30 til 17:30
Hvar 

Lögberg

101

Nánar 
Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

Fyrirlestrar Miðaldastofu Háskóla Íslands

Kristján Árnason

Upphaf íslenskrar tungu

Formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum

Fimmtudaginn 16. nóvember 2017 kl. 16.30

Lögbergi 101

Menn hafa lengi haft og hafa enn áhyggjur af dauða íslenskrar tungu. Frægt er kvæði Eggerts Ólafssonar Um sótt og dauða íslenskunnar, en samkvæmt því dó tungan úr iðrakvefi sem rekja mátti til lélegs málfars þeirra sem hana notuðu; það sem nú er helst talið ógna er það sem kallað hefur verið stafrænn dauði. Hugsjónin um varðveislu tungunnar virðist þó lifa, a.m.k. opinberlega. Ég vil leiða hugann að hinum enda þess „lífs“ sem vernda skal, þ.e. hvernig tungan varð til.

Flestum myndi þykja eðlilegt að miða upptök tungunnar við þróun sérstakrar menningar hér á landi á miðöldum. En hvaðan kom tungunni og menningunni nauðsynlegur og nægilegur kraftur og stuðningur til þess að „verða til“? Hvaða hugsjónir eða hugmyndafræði (ef einhver) bjó að baki? Ég mun ræða þessa þætti á grundvelli þess sem lesa má út úr íslenskum miðaldaritum sem fjalla beint um tungumálið og bókmenntirnar, málfræði og skáldskaparfræði. Helstu rit í þeim flokki eru Snorra-Edda og málfræðiritgerðirnar fjórar í Wormsbók. Einnig mun ég leiða hugann að félagslegum, pólitískum og málformlegum forsendum þess að það ritmálsviðmið, sem við (í vissum skilningi) búum enn við, náði þeim þroska sem raunin ber vitni. Hvað studdi og hvað ógnaði þessu nýja „lífi“, sem kannski var þó ekki nýtt, heldur enn eldra? Latína var alþjóðamál þess tíma, og spurning er að hve miklu leyti hún ógnaði heimamálinu eins og enska gerir nú. Hér er fróðlegt að huga að því hvers vegna Noregskonungasögur voru ritaðar á norrænu, en saga Dana á latínu.

Spurningarnar eru stórar, en ég mun ræða þær í ljósi nútíma málvísinda, þeirra sem fást við stöðlun og þróun og eftir atvikum „dauða“ tungumála. Ekki síst verður vitnað til kenningasmiðanna Einars Haugens og Heinz Kloss, en mér sýnist að þeir hafi ýmislegt gagnlegt til málanna að leggja. Með sínum hætti voru Snorri Sturluson, Ólafur hvítaskáld og aðrir málfræðingar tólftu, þrettándu og fjórtándu aldar að bregðast við formvanda og stöðuvanda tungunnar, og almennt séð átti sér stað merkilegur vöxtur og efling (e. elaboration) málsins þegar það tókst á við nýjar hugmyndir utan úr heimi. Og það er allt á sinn hátt hliðstætt málræktarstarfi 20. aldar.

Kristján Árnason er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands 1974 og doktorsprófi í almennum málvísindum frá Edinborgarháskóla 1977. Rannsóknir hans og kennsla hafa beinst að hljóðkerfisfræði, bragfræði og skáldskaparfræði, málsögu og félagsmálfræði. Hann sat um árabil í Íslenskri málnefnd og var formaður hennar 1989–2001.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

Kristján Árnason er prófessor emeritus í íslenskri málfræði.

Kristján Árnason: Upphaf íslenskrar tungu — formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum