Skip to main content

Kirkjusöngur á mótum tveggja tíma

Kirkjusöngur á mótum tveggja tíma - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. febrúar 2018 16:30 til 17:30
Hvar 

Lögberg

101

Nánar 
Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

Fyrirlestrar Miðaldastofu Háskóla Íslands

Árni Heimir Ingólfsson

Kirkjusöngur á mótum tveggja tíma

Hvað var sungið í íslenskum kirkjum um miðja 16. öld?

Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 kl. 16.30

Lögbergi 101

Fátt er vitað um kirkjusöng á Íslandi frá því að lútherskur siður var lögfestur og þar til sálmabók (1589) og grallari (1594) Guðbrands Þorlákssonar komu út á prenti. Heimildir gefa í skyn að nokkur tvídrægni hafi verið í kirkjusöngnum um skeið, enda áttu biskupar örðugt með að koma sér saman um tónlist og helgisiði. Ein merk heimild um kirkjusöng á þessu millibilsskeiði er handrit Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups (NKS 138 4to), sem Arngrímur Jónsson og fleiri hafa rannsakað. Það virðist geyma eins konar forskrift að helgihaldi með nótum og er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Handritið komst aldrei á prent og er líklega andstöðu Guðbrands þar um að kenna, enda beið Guðbrandur með að gefa út nokkur fyrirmæli um kirkjusöng þar til eftir andlát Gísla árið 1587.

Þó hafa fleiri heimildir varðveist sem bregða ljósi á kirkjusöng á Íslandi á fyrstu áratugum eftir siðaskipti. Brot úr tveimur íslenskum söngbókum frá því um eða upp úr 1550 hafa varðveist á Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi og hafa þau að geyma gregorska söngva við íslenska texta. Handritin eru merk heimild um tilraun til að laga hinn forna söng að nýjum sið. Þótt aðeins hafi varðveist tvö blöð úr hvorri bók sést hér glitta í stórhuga tilraun, útfærða af kunnáttusemi, sem miðaði að því að snúa efni hins kaþólska helgihalds á íslenskt mál fremur en að innleiða nýja kirkjusöngva Lúthers. Blöðin hafa enga athygli hlotið fram til þessa og virðist sem fræðimönnum á sviði tónlistar- og kirkjusögu hafi ekki verið kunnugt um tilvist þeirra. Þessi brot bregða ljósi á það sem nefnt hefur verið „handbókarlausa tímabilið“ í árdaga lútherskunnar á Íslandi, þ.e. á árunum frá 1541–1555. Þau sýna að einhver fyrirmæli um gregorskan messu- og tíðasöng, við söngtexta á íslensku auk bænalestra, voru skrifuð upp í handritum og þeim væntanlega fylgt við messuhald í kirkjum þótt ekki kæmust þau á prent. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessum brotum hvoru fyrir sig, efni þeirra og hugsanlegum uppruna.

Árni Heimir Ingólfsson nam tónlistarfræði við Harvard-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi 2003. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á íslenskri tónlist, bæði í handritum fyrri alda og tónlist 20. aldar, einkum tónlist Jóns Leifs. Árni Heimir er listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

Miðaldastofa Háskóla Íslands

The University of Iceland Centre for Medieval Studies

miðaldastofa.hi.is

Árni Heimir Ingólfsson nam tónlistarfræði við Harvard-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi 2003. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á íslenskri tónlist, bæði í handritum fyrri alda og tónlist 20. aldar, einkum tónlist Jóns Leifs. Árni Heimir er listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Kirkjusöngur á mótum tveggja tíma