Skip to main content

Kælan Mikla í beinu streymi á Háskólatónleikum

Kælan Mikla í beinu streymi á Háskólatónleikum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. janúar 2021 12:15 til 12:45
Hvar 
Nánar 
Tónleikarnir verða sendir út í streymi

Hljómsveitin Kælan Mikla treður upp á fyrstu Háskólatónleikum nýs árs í Hátíðasal Aðalbyggingar fimmtudaginn 28. janúar kl. 12.15. Þeir verða að sjálfsögðu í streymi í ljósi samkomutakmarkana.

Hér verður hægt að horfa á tónleikana.

Háskólatónleikaröðinni var ýtt úr vör í endaðan október á síðasta ári með glæsilegum streymistónleikum djassgítarleikarans Mikaels Mána og sveitar hans. Röðin hélt svo áfram í miðvikudagshádeginu 11. nóvember en þá spilaði ungsveitin Dymbrá á sérstaklega litríkum tónleikum, hvar kostir streymisins fengu að njóta sín svo um munar. Það var svo Umbra sem sló glæsilegan lokatón á haustmisserinu með viðhafnartónleikum í kapellu Háskólans.

Það er svo með sérstakri ánægju sem Háskóli Íslands kynnir tríóið Kæluna Miklu til leiks á fyrstu tónleikum vormisseris. Sveitin er skipuð þeim Sólveigu Matthildi, Margréti Rósu og Laufey Soffíu og hefur henni vaxið fiskur um hrygg allt frá stofnun 2013 og eljusemi meðlima hefur verið með ólíkindum. Það sem byrjaði sem uppákoma á ljóðaslammkvöldi er í dag mikilsvirt hljómsveit á alþjóðavísu sem fer reglulega í tónleikaferðalög erlendis og á aðdáendur um heim allan. Svo hávært hefur suðið verið í kringum Kæluna að Robert Smith úr The Cure handvaldi sveitina til að hita upp fyrir sig á tónleikum í Hyde Park árið 2018.

Kælan Mikla spilar einslags gotneskt drungapopp og hefur ekki síst vakið athygli fyrir sjónræna, ástríðufulla tónleika. Unnendur Háskólatónleikana fá því hér einstakt tækifæri á að bergja á þessum snilldarbrunni. Og allt þetta mun upp úr brunninum streyma, í orðsins fyllstu merkingu, í Hátíðasal Háskólans, fimmtudaginn 28. janúar næstkomandi, kl. 12.15.

Tónleikunum verður nefnilega streymt í ljósi yfirstandandi samfélagshamlanna og salurinn verður tómur, utan tæknifólks og tónlistarmanna. Hægt verður að horfa á beint en einnig að njóta síðar í upptökuformi. Allir velkomnir og aðgangur gjaldfrjáls.

Um Háskólatónleika
Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans.

Nýr umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ á þessum komandi vetri. Fólk geti búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svosem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni.

Röðin heldur áfram af fullum krafti í vor og gleðilegt að geta sagt frá því að hin mikilhæfa Sóley mun leika við hvurn sinn fingur í  febrúar ásamt góðu samverkafólki.

Hljómsveitin Kælan Mikla treður upp á fyrstu Háskólatónleikum nýs árs í Hátíðasal Aðalbyggingar fimmtudaginn 28. janúar kl. 12.15. Þeir verða að sjálfsögðu í streymi í ljósi samkomutakmarkana.

Kælan Mikla í beinu streymi á Háskólatónleikum