Skip to main content

Hátíðlegir Háskólatónleikar: Umbra í beinu streymi frá kapellu Aðalbyggingar

Hátíðlegir Háskólatónleikar: Umbra í beinu streymi frá kapellu Aðalbyggingar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. desember 2020 15:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Tónleikarnir verða aðeins í streymi

Hljómsveitin Umbra mun magna upp aðventustemninguna með gömlum og nýjum jólalögum, sem sveitin flytur með sínum einstaka hætti, á Háskólatónleikum í kapellu Aðalbyggingar Háskóla Íslands 16. desember kl. 15. Tónleikunum verður streymt í ljósi samkomutakmarkana.

Háskólatónleikaröðinni var ýtt úr vör í endaðan október með glæsilegum streymistónleikum djassgítarleikarans Mikaels Mána og sveitar hans. Röðin hélt svo áfram í miðvikudagshádeginu 11. nóvember en þá spilaði ungsveitin Dymbrá á sérstaklega litríkum tónleikum, hvar kostir streymisins fengu að njóta sín svo um munar.

Nú er komið að Umbru en óhætt er að segja að engin sveit sé betur til þess fallin að ylja örþreyttum landanum þessa desembertíð. Sveitin var stofnuð haustið 2014 og hefur fyrir margt löngu getið sér gott orð fyrir nálgun sína við listformið æðsta. Umbru skipa þær Alexandra Kjeld (kontrabassi og söngur), Arngerður María Árnadóttir (orgel, söngur og keltnesk harpa), Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir (fiðla og söngur) og Lilja Dögg Gunnarsdóttir (söngur og slagverk).

Auk þess að vera iðinn við tónleikahald hefur hópurinn gefið út plötur og fyrir tveimur árum kom platan Sólhvörf út þar sem Umbra útsetur gömul jafnt sem ný jólalög með sínum hætti. Aðventustemningin á því verki er áþreifanleg. Niður aldanna er þarna; sólhvörf, myrkur, vetur og norðangarri en um leið mýkt, höfgi, stilla og þægilegheit. Allt þetta mun streyma fram, í orðsins fyllstu merkingu, í kapellunni þann 16. desember næstkomandi kl. 15.00.

Tónleikunum verður nefnilega streymt í ljósi yfirstandandi samfélagshamlanna og salurinn verður tómur, utan tæknifólks og tónlistarmanna. Hægt verður að horfa á beint en einnig að njóta síðar í upptökuformi. Aðgangur að tónleikunum er öllum heimill og  gjaldfrjáls.

Slóð á streymi

Um Háskólatónleika

Um áratugabil, og raunar í hálfa öld, hefur það verið hefð í Háskóla Íslands að standa fyrir svofelldum Háskólatónleikum. Um mánaðarlega viðburði er að ræða, á haust- og vorönn, og fara þeir fram í byggingum háskólans.

Nýr umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen og segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ á þessum komandi vetri. Fólk geti búist við tónlist sem tilheyri alls kyns geirum, svosem poppi/rokki, djass, klassík og bara því sem álitlegt þykir hverju sinni.

Hljómsveitin Umbra mun magna upp aðventustemninguna með gömlum og nýjum jólalögum, sem sveitin flytur með sínum einstaka hætti, á Háskólatónleikum í kapellu Aðalbyggingar Háskóla Íslands 16. desember kl. 15.

Hátíðlegir Háskólatónleikar: Umbra í beinu streymi frá kapellu Aðalbyggingar