Skip to main content

Fyrirlestur: Heilabylgjur og handanlíf

Fyrirlestur: Heilabylgjur og handanlíf - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. febrúar 2018 11:40 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Stofa 229

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 12. febrúar heldur dr. Benedikt Hjartarson fyrirlestur á málstofu í boði Guðfræðistofnunar í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Málstofan hefst kl. 11:40 og lýkur kl. 13. Hún er öllum opin.

Yfirskrift fyrirlestursins er: Heilabylgjur og handanlíf: Um sálarrannsóknir, spíritisma og strangvísindalegar skýringar dulrænna fyrirbrigða á öndverðri 20. öld.

Fyrstu áratugir 20. aldar voru blómaskeið dulspekihreyfinga á Vesturlöndum. Mikilvægi dulrænna þekkingarhefða á tímabilinu er jafnan skýrt sem einskonar viðnám gegn nútímanum eða sem viðleitni til að halda í og rækta andlegar hefðir sem rökvæðing og vísindahyggja ógni. Nánari skoðun leiðir í ljós að heimsmynd nútímadulspekinnar á ekki síður rætur í kenningum á sviði raunvísinda en í trúarlegum hefðum, sem endurspeglast með skýrum hætti í heitum fræðagreina eins og sálarlíffræði, sáleðlisfræði og alheimslíffræði. Í erindinu verður fjallað um margbrotið samband trúarbragða og raunvísinda á öndverðri 20. öld og sjónum beint sérstaklega að vettvangi „strangvísindalegra“ eða „empírískra“ sálarrannsókna.

Dr. Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá hugvísindasviði háskólans í Groningen árið 2012. Hans helsta sérsvið eru framúrstefnuhreyfingar í bókmenntum og listum í upphafi 20. aldar, en hann hefur einnig birt fjölda greina sem fjalla um sögulega orðræðugreiningu, menningarsögu og nútímadulspeki. Á meðal rita hans er bókin Visionen des Neuen: Eine diskurshistorische Analyse des frühen avantgardistischen Manifests (Winter, 2013), auk greinasafnsins Beyond Given Knowledge (De Gruyter, 2017) og sérheftis Ritsins um dulspeki (1/2017), sem bæði komu út á þessu ári í hans ritstjórn.

Benedikt Hjartarson.

Fyrirlestur: Heilabylgjur og handanlíf