Fyrirlestur: Að láta myrkrið vísa veginn. Um hugræna táknfræði vestrænnar dulspeki | Háskóli Íslands Skip to main content

Fyrirlestur: Að láta myrkrið vísa veginn. Um hugræna táknfræði vestrænnar dulspeki

Hvenær 
13. febrúar 2018 13:20 til 14:50
Hvar 

Aðalbygging

Stofa 220

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þriðjudaginn 13. febrúar flytur Guðmundur Ingi Markússon fyrirlesturinn „Að láta myrkrið vísa veginn. Um hugræna táknfræði vestrænnar dulspeki; Lögmálsbók Aleisters Crowley sem dæmi“. Fyrirlesturinn, sem er öllum opinn, er haldinn á vegum Trúarbragðafræðistofu í stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:20.

Guðmundur Ingi Markússon er með meistaragráðu í trúarbragðafræðum og almennri táknfræði frá Árósaháskóla; einnig stundaði hann framhaldsnám við Queen’s háskólann í Belfast hjá Institute of Cognition and Culture. Í skrifum sínum hefur Guðmundur fjallað um hugræna trúarbragðafræði, þróunarkenninguna í hug- og félagsvísindum, trúleysi, ásatrú, og vestræna dulspeki.

Nánari lýsing á fyrirlestrinum:

Hugræn trúarbragðafræði (cognitive science of religion) snertir sífellt fleiri svið trúarbragðafræðanna og þar er vestræn dulspeki engin undantekning. Fyrirlesturinn byggir á grein í nýlegu hefti ARIES: Journal for the Study of Western Esotericism. Bakgrunnurinn er hugræn táknfræði (cognitive semiotics). Höfundur skoðar torskilda texta, eitt einkenni dulspekinnar, og færir rök fyrir því að viðgangur þeirra sé táknfræðilegt vandamál, þar sem slíkir textar myndu varla ná flugi í daglegum samskiptum, s.s. á síðum blaðanna. Lögmálsbók Aleisters Crowley (The Book of the Law eða Liber AL) er notuð sem dæmi. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að í trúarlegu samhengi (ólíkt því hversdagslega) hafi „torfið“ sérstök, hugræn áhrif sem auki sannfæringarmátt textans, og þar með viðgang hans (lestur, útgáfu, o.s.frv.) og þeirra hefða sem honum tengjast (textaskýringa, helgisiða, o.þ.h.).

Guðmundur Ingi Markússon.

Fyrirlestur: Að láta myrkrið vísa veginn. Um hugræna táknfræði vestrænnar dulspeki