Skip to main content

Doktorsvörn Kristínar Karlsdóttur á Menntavísindasviði

Hvenær 
13. janúar 2017 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kristin Karlsdóttir.jpgFöstudaginn 13. janúar ver Kristín Karlsdóttir doktorsritgerð sína í menntavísindum við Uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist: Námsferli leikskólabarna - Children’s learning processes.

Andmælendur eru dr. Sofia Avgitidou, prófessor við University of Western Macedonia, Grikklandi, og dr. Tuija Turunen, prófessor við University of Lapland, Finnlandi. 

Aðalleiðbeinandi var dr. Leigh O’Brien, prófessor við SUNY Geneseo, Bandaríkjunum, meðleiðbeinandi var Jóhanna Einarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, en einnig sat í doktorsnefndinni  dr. Gretar L. Marinósson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Dr. Ólafur Páll Jónsson, dósent og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnar athöfninni.
 

Um verkefnið

Rannsókn þessari er ætlað að varpa ljósi á þátttöku barna í leikskóla. Markmið hennar er tvíþætt: að kanna ýmsa þætti sem hafa áhrif á námsferli ungra barna í tveimur ólíkum leikskólum; og að lýsa því af nákvæmni hvernig börn læra með þátttöku í daglegu lífi leikskóla síns.
Beitt er eigindlegri rannsóknaraðferð og leitað til aðferða þjóðfræði (e. ethnography), til að kanna þátttöku barna í daglegu starfi tveggja leikskóla. Annar skólinn starfar í anda leikskóla í borginni Reggio Emilia á Ítalíu en hinn styðst við íslenska leikskólastefnu, Hjallastefnuna. Byggt er á félagsmenningarkenningu, þar sem lögð er áhersla á mikilvægi félagslegra þátta í námi barna, og er rannsóknin jafnframt undir áhrifum „félagsfræði barnæsku“ (e. sociology of childhood). Samkvæmt þeim hugmyndum er litið á börn sem virka einstaklinga sem eru hæfir til að beita áhrifamætti (e. agency) sínum þegar þau skapa merkingu í samskiptum við fullorðna og önnur börn. Auk þess er litið svo á að uppeldis- og kennslufræði, leikur og valdatengsl milli leikskólakennara og barna, auk félagamenningu þeirra séu meðal þeirra þátta sem hafi áhrif á námsferli barna. Niðurstöður benda til þess að í leikskólunum tveimur séu valdatengsl í samskiptum leikskólakennara og barna ólík. Þrátt fyrir þennan mun sýna gögnin að þátttaka barnanna (e. participation) og hneigð þeirra til náms (e. learning disposition) sé ótrúlega lík í leikskólunum. Leikskólarnir áttu það sameiginlegt að í barnahópnum fengu börnin næg tækifæri til að taka þátt í leik og samskiptum og finna lausnir í ýmsum aðstæðum, auk þess var í báðum skólum beitt sérstökum aðferðum til að hvetja börn til að tjá viðhorf sín. Niðurstöður benda til þess að dagleg reynsla barnanna, þar sem þau fá tækifæri til að leika sér í barnahópnum, hafi meiri áhrif á nám þeirra en sértækar aðferðir sem tengjast ólíkum skólanámskrám leikskólanna. Nýta má niðurstöðurnar á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi í samræðu um það hvernig skóli fyrir fimm ára börn ætti að vera. Draga má þá ályktun af rannsóknarniðurstöðunum að ákjósanlegt sé fyrir þennan aldurshóp að vera í skóla sem sér börnunum fyrir nægum tækifærum til að leika sér og þar sem jafnframt er beitt sérstökum aðferðum til að tryggja börnunum tækifæri til að tjá hugmyndir sínar og skoðanir.

Um doktorsefnið

Kristín Karlsdóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kristín lauk M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2001. Hún lauk leikskólakennaraprófi frá Gautaborgarháskóla árið 1979 og BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 1981. Hún starfaði um árabil í leikskólum, sem leikskólakennari og leikskólastjóri. Frá 1996 hefur Kristín kennt verðandi leikskólakennurum menntunarfræði ungra barna (e. early childhood education), m.a. með áherslu á leik og skapandi starf, rannsóknir með börnum og ungmennum, skráningar í anda Reggio Emilia og Námssöguskráningar að fyrirmynd frá Nýja Sjálandi. Kristín er forstöðumaður Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) og hefur tekið þátt í rannsóknarsamstarfi á vegum RannUng sem tengist m.a. leik og námi barna, áhrifamætti barna (e. children‘s agency) og lýðræði í leikskólum, skráningum og mati í leikskólastarfi og samfellu milli leik- og grunnskóla.